Guðmundur Guðmundsson lést 7. mars 2012

Guðmundur Guðmundsson var fæddur á Núpi undir Eyjafjöllum 9. september 1923. Hann ólst þar upp við störf til sjávar og sveita en fór ungur til náms í Íþróttaskólann í Haukadal og náði góðum tökum á glímuíþróttinni. Guðmundur var sigursæll í glímukeppni Fjallamótanna svokölluðu og vann Skjaldarglímu Skarphéðins árið 1945. Eftir það fór hann til húsasmíðanáms í Reykjavík og varð þar áberandi á glímumótum enda talinn meðal bestu glímumanna landsins. Hann var svo eðlisglíminn að sögn félaga sinna að það var einsdæmi. Ef andstæðingar hans gerðu minnstu mistök kom hann með mótbragð og þeir voru fallnir á sama augnabliki. Hans helstu brögð voru klofbragð og hælkrókar með vinstri fótar leggjarbragði til undirbúnings. Guðmundur vann Íslandsglímuna árin 1948 og 1949 og varð þar með glímukóngur Íslands. Hann vann einnig Skjaldarglímu Ármanns bæði árin. Eftir það fluttist hann frá Reykjavík og hætti að æfa glímu. Guðmundur kvæntist Ástu Sveinbjarnardóttur frá Ysta-Skála og þau eignuðust þrjú börn. Hann var bóndi á Núpi frá árinu 1953 og árið eftir varð hann skjaldarhafi Skarphéðins í annað sinn en lagði þá beltið á hilluna. Guðmundur var hár og þrekvaxinn og vel að manni en glímdi jafnan af prúðmennsku. Hann var geðprýðismaður og vel látinn af öllum sínum samferðamönnum. Guðmundur lést 7. mars 2012.