50 ár síðan Kanadafarar glímdu í Montreal

Kanadaferð 1967 punktar 1. Fundur GLÍ 19. des. 1965. Sigurður Geirdal segir frá að mikil heimssýning verði haldin í Kanada 1967. Íslendingar koma þar fram í félagi við hin Norðurlöndin. Sýnd verður menning, ekki vörur. „Heyrst hefur að Íslendingar í Kanada hafi mikinn áhuga á að fá unga íslenska glímumenn vestur í þessu sambandi. Taldi Sigurður rétt að GLÍ fylgdist vel með þessum málum frá byrjun og athugaði möguleika á því að senda hóp glímumanna á mót þetta.“ Kjartan Bergmann tók mjög undir þetta og lagði fram tillögu um skipun þriggja manna nefndar um málið: Sigurður Geirdal, Sigurður Ingason og Valdimar Óskarsson. Samþykkt. 2. Fundur GLÍ 9. sept. 1966. „Kjartan skaut því að Kanadanefnd GLÍ að athuga möguleika á því að fá þjóðdansara með í sýningarflokkinn. 3. Fundur GLÍ 22. jan. 1967. Sigurður Geirdal skýrði frá störfum Kanadanefndar. Nefndin hefur komist að samkomulagi við íslensku sýningarnefndina um að flokkinn skipi 10 glímumenn auk fararstjóra. Mun íslenska sýningarnefndin greiða ferðakostnað 5 glímumanna og kostnað við fararstjóra. Nefndin taldi sig þar með hafa lokið störfum. Lagt til að nefndin yrði endurkjörin og bætt við hana Sigtryggi Sigurðssyni og Þorsteini Einarssyni. Samþykkt. Um val í flokkinn vísaði Kjartan til landsliðsnefndar sem myndi þá njóta aðstoðar landsþjálfara Þorsteins Kristjánssonar. Kjartan lagði til að Þorsteinn Einarsson yrði fararstjóri. Samþykkt einróma. 4. Fundur GLÍ 15. apríl 1967. Landsliðsnefnd og Kanadanefnd boðaðar á fundinn. Kanadanefnd hefur mætt á æfingar hjá glímufélögum og horft á æfingar og skýrt glímumönnum frá gangi mála. Rætt um að eignast glímubúninga og þjóðbúninga og leitað til ÍSÍ um lán vegna þessa. Samþykkt. 5. Fundur GLÍ 20. maí 1967. Lagður fram samningur um lán hjá ÍSÍ 40 þúsund krónur. Kanadanefnd fór fram á styrk frá GLÍ þrjú þúsund krónur. Það samþykkt. Rætt um að Þorsteinn Kristjánsson fari einnig á sömu kjörum og aðrir. Samþykkt. Kanadanefnd hefur snúið sér til glímufélaga og beðið um þrjú þúsund króna styrk frá hverju. 6. Fundur GLÍ 25. júní 1967. Rætt um glímuförina til Kanada þar sem flokkurinn sýndi á Heimssýningunni í Montreal 8. júní og víðar. Lesinn nafnalisti. Lagt til að glímumenn, þjálfari og fararstjóri fengju áritaða bikara að gjöf frá GLÍ sem minjagripi vegna þessarar ferðar. Samþykkt. Ítarleg skýrsla um ferðina birtist í Ársskýrslu GLÍ 1967. Eftir beiðni Rögnvaldar Ólafssonar tók ég saman það sem skráð var í fundargerðir GLÍ um glímuförina til Kanada 1967. Þetta var það helsta. Í dag eru 50 ár síðan Kanadafarar glímdu í Montreal. 8. júní 2017. Jón M. Ívarsson. IMG_20170614_205205IMG_20170614_203909