Vel heppnaðar æfingabúðir að LaugumÞjálfarar, landsliðið og ungmennahópurinn. (Á myndina vantar iðkendur frá UMSE, Kára Ragúels, Heiðrúnu Fjólu og Ingiberg

Um helgina fóru fram æfingabúðir í glímu að Laugum í Sælingsdal fyrir 7.-10. bekk og landsliðið. Rúmlega 30 iðkendur mættu, frá ÚÍA, UMF Njarðvík, GFD, UMSE, HSK og HSÞ. Helgin hófst með skemmtilegum fyrirlestir frá Pálmari Ragnarssyni, þar sem fjallað var um samskipti í íþróttum, hugarfar og markmiðasetningu.
Fyrsta æfingin á laugardeginum fyrir ungmennin var í höndum Svönu Hrannar og Margrétar Rúnar. Léttar glímur þar sem áhersla var lögð á hælkrókana. Landsliðið æfði svo gouren undir handleiðslu Ingibergs Sigurðssonar. Eftir hádegi hélt Svana kynningu um íslensku glímuna, framtíðina og möguleika tengda glímunni. Þá kynnti Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir stjórnarmaður í ungmennaráði UMFÍ, ungmennaráð, mikilvægi og hlutverk þess. Ákveðið var að fara umsóknarleiðina við stofnun ungmennaráðs GLÍ. Frétt kemur fljótlega um það.
Næsta æfðu ungmennin undir stjórn Ingibergs, Einars Eyþórssonar og Hjartar Elís Steindórssonar. Þar var lögð áhersla á krækju og leggjarbragð. Eftir æfinguna fengu ungmennin að prófa backhold og aðstoðaði landsliðið við þjálfunina. Seinni æfing landsliðsins undir stjórn Ingibergs var áhersla lögð á backhold.Um kvöldið fóru allir í sund til að ná úr sér átökum dagsins.


Marín tekur Ásmund í mjaðmahnykk

Á sunnudeginum stjórnuðu Marín Laufey og Ásmundur æfingu ungmennanna. Þar var áhersla á hábrögð, þ.e. klofbragð með vinstri í afturstigi og mjaðmahnykkur. Síðasta æfing landsliðsins var undir stjórn Guðmundar Stefáns, þar var lögð áhersla á keppnisgreinar Evrópumótsins 2019, þ.e. glímu, backhold og gouren. Landliðið glímdi tíu 4 mínútna glímur, há ákefð og mikil átök.
GLÍ þakkar öllum sem komu að helginni, iðkendum, þjálfurum, fararstjórum og bílsstjórum, fyrirlesurum og matráðum. Við erum strax farin að skipuleggja næstu æfingabúðir.