Keppt um glímuskjöld Akurnesinga eftir langt hlé

Eins og glímuunnendum er kunnugt hefur Lárus Kjartansson unnið að því undanfarin misseri að endurvekja glímu á Akranesi en þar var nokkuð öflug glímustarfsemi um miðja síðustu öld og glímuæfingar stundaðar fram á sjöunda áratuginn. Á 17. júní var keppt um glímuskjöld Akurnesinga í fyrsta sinn síðan 1952 eftir því sem næst verður komist. Þar sem ekki hefur enn náðst að byggja upp glímuhóp í flokki fullorðinna voru það einungis grunnskólanemar sem tóku þátt í mótinu að þessu sinni en með sama áframhaldi má fastlega gera ráð fyrir því að glímumenn í eldri flokkum eigi eftir að gera garðinn frægan í glímunni á Skaganum á næstu árum. Sigurvegari að þessu sinni og nýr skjaldarhafi varð Andri Már Sigmundsson en hann stóð sig með miklum ágætum í glímumótum síðasta keppnistímabil og varð meðal annars grunnskólameistari Íslands í 9. bekk. Úrslit mótsins: 1. Andri Már Sigmundsson, 4 v. 2. Guðmundur Bjarni Björnsson, 3 v. 3. Jófríður Ísdís Skaftadóttir, 2 v. 4. Arnar Freyr Jónsson, 1 v. 5. Guðmundur Þór Grímsson, 0 v. Að mótinu loknu var áhorfendum boðið að prófa glímu. Um 50 einstaklingar á öllum aldri prófuðu glímuna og var glímt í um klukkustund