Hvað er glíma?

Í upphafi viðureignar heilsast glímumenn, taka sér stöðu , taka tökum og stíga. Þegar báðir eru tilbúnir gefur yfirdómari merki, mega þeir sækja brögð hvor á öðrum. Menn eiga alltaf að vera á hreyfingu: stíga, sækja eða verjast. Á milli bragða skulu handleggir ætíð vera slakir. Markmiðið í hverri viðureign er að veita andstæðingnum byltu með löglegu glímubragði, en halda jafnvægi sjálfur að því loknu.

Bylta er ef læri viðfangsmanns, sitjandi, bolur, öxl, höfuð eða upphandleggur snertir glímuvöll. Það telst einnig bylta ef glímumaður styður sig með báðum höndum samtímis, fyrir aftan bak.
Hinir skyggðu hlutar sýna hvað af líkama glímumanns má snerta glímuvöll, án þess að bylta verði. Bannað er að níða andstæðinginn í gólfið. Níð er ef sækjandi fellur ofan á viðfangsmann sinn, þrýstir honum niður með handafli eða hrekur hann eftir glímuvelli eftir að hann hefur komist í handvörn.

Bannað er að bolast. Bol er ef mjaðmir eru bognar, fætur gleiðir og handleggir beinir og stífir.