Saga GLÍ

Glímusamband Íslands var stofnað í Reykjavík 11. apríl 1965 af 11 héraðssamböndum og íþróttabandalögum. Fyrsti formaður var kjörinn Kjartan Bergmann Guðjónsson. Glímulög voru endurskoðuð og komið á fót fjórðungsglímum í öllum landsfjórðungum. Ráðinn var landsþjálfari og haldin voru dómaranámskeið.

Fjölmennur flokkur glímumanna fór til Kanada 1967 undir stjórn Þorsteins Einarssonar íþróttafulltrúa og einnig 1975. Þessar ferðir hleyptu miklu fjöri í glímuiðkun og glíman stóð með blóma á þessum árum. Glímumót í sjónvarpi áttu líka sinn þátt í þeirri athygli sem glíman fékk, en hið unga Ríkissjónvarp sýndi töluvert frá glímumótum sem vöktu mikla eftirtekt. 1973 var Bikarglímu GLÍ hleypt af stokkunum og liðakeppnin Sveitaglíma Íslands náði miklum vinsældum.

GLÍ hefur níu sinnum gefið út glímublað á árunum 1984-2005. Á níunda áratugnum fækkaði keppnismönnum. Stjórn GLÍ brást við með því að færa aldur keppnismanna niður í 10 ára aldurinn. Í kjölfarið kom mikil aukning yngri glímumanna og enn meir þegar þátttaka kvenna var gerð möguleg árið 1990. Grunnskólamóti GLÍ var hleypt af stokkunum 1987 og hefur oft verið fjölmennt mót með á annað hundrað keppendur. Sömuleiðis hefur Meistaramót yngri en 16 ára verið fjölsótt en hún hefur á seinni árum verið haldin víða um land samtímis Grunnskólamótinu. Freyjuglíman, mót kvenna þar sem krýnd er glímudrottning, hóf göngu sína árið 2000 en mótið hefur nú sameinast Íslandsglímunni.

Árið 1987 gerðist GLÍ aðili að Keltneska fangbragðasambandinu (IFCW) og í framhaldi af því hófst þátttaka glímumanna í erlendu fangi. Glímumenn gengu til fangs við erlendar þjóðir á fjölmörgum mótum. Keppt var í þjóðaríþrótt Skota, backhold, Bretóna, gouren og meira segja var farin ferð til Kanaríeyja og keppt í Lucha canaria við heimamenn. Tvívegis var keppt í glímu á Keltneska meistaramótinu en eftir að hún var felld niður af þeim mótum 1992. Utanferðir glímumanna til sýninga og keppni hafa verið fjölmargar síðustu ár og fer fjölgandi.

Árið 1987 hófst markviss kynning glímunnar í grunnskólum landsins á vegum GLÍ. Fyrst eingöngu á kostnað GLÍ sem réði mann til starfans. Í framhaldi af tillögu þess efnis á ÍSÍ þingi 1988 samþykkti alþingi að leggja fé til kynningar glímunnar í grunnskólum landsins og síðan hefur GLÍ séð um það verkefni. Farið hefur verið í alla grunnskóla landsins og sum árin hafa meir en tíu þúsund nemendur fengið að kynnast glímunni og líkað vel.

Formenn GLÍ frá upphafi hafa verið:
Kjartan B Guðjónsson 1965-71.
Ólafur H Óskarsson 1971-72.
Valdimar Óskarsson 1972-74.
Guðmundur Guðmundson 1974-75.
Kjartan B Guðjónsson 1975-76.
Ólafur Guðlaugsson 1976-80.
Sigtryggur Sigurðsson 1980-85.
Rögnvaldur Ólafsson 1985-95.
Jón M Ívarsson 1995-01.
Kristján E Yngvason 2001-05.
Jón Birgir Valsson 2005-2008.
Ólafur Oddur Sigurðsson 2008-2018.
Svana Hrönn Jóhannsdóttir 2018-

Starf GLÍ er í sífelldri mótun. Öll lög og reglugerðir hafa verið endurskoðuð á síðustu árum. Glímubúningar hafa tekið breytingum. GLÍ hefur látið sér annt um sögu og minjar glímunnar og á nú talsvert safn mynda og gripa úr sögunni. Saga íþróttarinnar er til í handriti skráð af Þorsteini Einarssyni og er í ráði að gefa ritið út von bráðar.

Kynning glímunnar hefur verið helsta verkefni GLÍ síðustu ár og hafa börn og unglingar hvarvetna tekið henni vel. Fjölmörg dómara- og þjálfaranámskeið hafa verið haldin og ný glímufélög hafa risið á legg. Starf Glímusambandsins er sífelld saga sóknar og varnar eins og í glímunni. Glíman er þjóðaríþrótt Íslendinga og sífellt þarf að minna þjóðina á það hvílíka menningararfleifð hún á í glímunni.