Grettisbeltið

AÐDRAGANDI OG UPPHAF
Íslandsglíman er elsta og sögufrægasta íþróttamót á Íslandi og hefur verið haldið árlega frá árinu 1906 að fimm árum undanskildum á árum fyrri heimsstyrjaldar. Sigurvegari Íslandsglímunnar - glímukóngur Íslands - stendur fremstur meðal jafningja í þjóðaríþrótt Íslendinga og hefur jafnan þótt mikið til þess koma að bera þann titil. Nú verður reynt að rekja sögu Íslandsglímunnar í örstuttu máli og verður stiklað á stóru.
Upphaf Íslandsglímunnar má rekja til þess mikla glímuáhuga sem spratt fram á Akureyri í upphafi 20. aldarinnar. Einn af frumkvöðlum hans var afreksmaðurinn Jóhannes Jósefsson sem hampaði titli glímukóngs árin 1907 og 1908. Jóhannes hafði forgöngu um stofnun fyrsta Ungmennafélags á Íslandi í janúar 1906 sem var Ungmennafélag Akureyrar. Það hafði íþróttir á stefnuskrá sinni og þá fyrst og fremst glímuna en Jóhannes var ákafur unnandi og iðkandi hennar og dreif fjölda ungra manna til glímuiðkana á vegum UMFA. Ekki minnkaði kappið í ungum mönnum staðarins og nágrennis þegar hópur virðulegra borgara stofnaði glímufélagið Gretti í febrúar sama ár og hóf þegar að láta gera veglegan verðlaunagrip til heiðurs besta glímumanni landsins, það er að segja Grettisbeltið. Um sumarið var beltið fullgert og var þá auglýst að það yrði til verðlauna í "Verðlaunaglímu Íslands hinni fyrstu" eins og mótið var nefnt 21. ágúst árið 1906.
Þetta þóttu mikil tíðindi og ungir menn hófu þegar að æfa fyrir mótið. Samgöngur þeirra tíma voru á þann veg að ekki var að vænta keppenda nema frá Akureyri og úr næsta nágrenni. Tímasetningin á þriðjudegi var fremur óhagstæð sveitamönnum sem margir voru vel glímandi, einkum í Þingeyjarsýslu og komu einungis tveir þeirra til keppni. Voru þeir báðir úr Reykjadal. Keppendur voru alls tólf og voru tveir frá Húsavík, tveir úr Reykjadal sem fyrr segir og hinir átta frá Akureyri. Fimm manna dómnefnd var skipuð af stjórn Grettisfélagsins en hugmyndir manna um glímulög og reglur voru nokkuð misjafnar og átti það eftir að koma betur í ljós og valda deilum, einkum 1908.

FYRSTA ÍSLANDSGLÍMAN 1906
Þessi fyrsta kappglíma um Grettisbeltið fór fram í húsi góðtemplara á Akureyri er þá var í smíðum. Áhorfendur sátu á bekkjum meðfram veggjum en glímuvöllur var ekki afmarkaður. Ekki var gefið merki um það hvenær byrja ætti og ekki tókust menn í hendur fyrir átökin svo sem seinna varð. Þessir tólf ungu menn glímdu vasklega og þegar lokið var glímum voru þrír þeirra efstir og jafnir og höfðu hlotið eina byltu hver. Þetta voru Jóhannes Jósefsson, formaður UMFA og þeirra helsti glímumaður. Ólafur Valdimarsson, Austfirðingur er dvaldi á Akureyri og hafði keppt í bændaglímum fyrir UMFA og er því talinn til þess félags. Þriðji keppandinn var Þingeyingur, Emil Tómasson frá Einarsstöðum í Reykjadal. Allir voru þeir hinir vöskustu menn og glímdu nú til úrslita. Þær glímur fóru þannig að Emil féll fyrir Jóhannesi og Ólafur felldi báða. Varð hann því fyrsti glímukóngur Íslands og um leið sá yngsti, 19 ára gamall og hefur engum yngri manni tekist að vinna Grettisbeltið. Ólafur nefndi sig síðar Ólaf V Davíðsson og er þekktur undir því nafni.
Ekki voru notuð glímubelti á þessari kappglímu enda þekktust þau tæplega þótt ungmennafélagar á Akureyri væru þá farnir að spenna sig lærólum til varnar buxnasliti. Búningur keppenda var hvítar buxur girtar ofan í ullarsokka sem náðu upp til hnés og voru flestir á leikfimisskóm. Menn voru girtir belti og er líklegt að þar hafi andstæðingar gripið taki. Að ofan voru menn í hvítri skyrtu ýmist með stuttum eða síðum ermum.

GRETTISBELTIÐ
Grettisbeltið er merkasti og sögufrægasti gripur í gjörvallri íþróttasögu Íslands og einnig sá elsti. Hefur það verið farandgripur allt frá upphafi og vinnst aldrei til eignar. Sama ólin fylgir beltinu og var á því upphaflega. Grettisbeltið var smíðað í Reykjavík af Erlendi gullsmið Magnússyni. Það er úr silfri og er mynstur þess mjög skrautlegt. Að framan er á því kringlóttur skjöldur með andlitsmynd er á að tákna Gretti fornkappa Ásmundarson er var fangbragðakappi mikill eftir því sem saga hans segir. Umhverfis skjöldinn er letrað höfðaletri: "Glímuverðlaun Íslands, Grettir." Í hvert sinn og keppt er um skjöldinn er gerður silfurskjöldur með dagsetningu keppninnar og nafni sigurvegarans og er skjöldurinn festur á beltið. Eru að jafnaði um 30 skildir á beltinu og er þá jafnan elsti skjöldurinn fjarlægður af beltinu og settur í glerskáp til sýnis á skrifstofu Glímusambandsins þegar nýr skjöldur er settur á beltið. Upphaflega var beltið eign Glímufélagsins Grettis á Akureyri sem lét gera það. Hafði Grettisfélagið umsjón með beltisglímunni fyrstu árin, einnig eftir að vettvangur hennar fluttist til Reykjavíkur. Fljótlega eftir 1920 þegar Grettisfélagið lagði upp laupana afhenti það Íþróttasambandi Íslands beltið til varðveislu með því skilyrði að það sæi um framkvæmd Íslandsglímunnar sem þá var farið að kalla mótið. Þegar Glímusamband Íslands var stofnað 1965 afhenti ÍSÍ því Grettisbeltið til eignar og hefur það síðan séð um framkvæmd Íslandsglímunnar.

ÍSLANDSGLÍMAN GEGNUM TÍÐINA Íslandsglíman á Akureyri
Fyrstu fjórar Íslandsglímurnar fóru fram á Akureyri í umsjá Glímufélagsins Grettis sem hafði að eigin frumkvæði tekið að sér að hrinda þessu merka móti af stokkunum og sá um framkvæmd þess fyrstu árin. Önnur Íslandsglíman fór fram á sama stað og hin fyrsta og var í betra lagi fjölmenn. Alls mættu 24 yngismenn til leiks og hafa aldrei verið fleiri. Fjórir hættu keppni en Jóhannes Jósefsson sigraði nú með yfirburðum og lagði alla sem hann glímdi við. Emil Tómasson fylgdi fast á hæla honum og hlaut mikið hrós fyrir góða glímu. Þessi mikla glíma hófst kl. 5 og stóð til miðnættis.
Þriðja Íslandsglíman fór einnig fram á Akureyri snemmsumars 1908. Dómnefnd var fimm manna og meðal annars var einn af þeim fulltrúi keppenda. Keppendur voru 14 talsins en aðeins þrír luku keppni. Aðeins tveir keppendur voru frá Akureyri. Flestir keppenda voru úr Mývatnssveit og þeirra helsti kappi, Pétur Jónsson í Reykjahlíð fór úr liði á olnboga í glímu sinni við Jóhannes Jósefsson. Glímumenn Mývetninga voru afar ósammála þeim byltureglum er dómnefnd Grettismanna fór eftir og vildu ekki viðurkenna handvarnir. Töldu þeir Jóhannes margfallinn í viðureigninni við Pétur og við meiðsli Péturs fór glíman út um þúfur og leystist upp. Tíu keppendur hættu þá keppni í mótmælaskyni við úrskurði dómnefndar. Aðeins þrír vildu glíma áfram. Voru það þáverandi glímukóngur, Jóhannes Jósefsson og bræður tveir úr Fnjóskadal. Sigraði Jóhannes í glímum þeirra og hélt titli glímukóngs. Hefur engin Íslandsglíma fyrr né síðar misfarist jafn gjörsamlega né vakið eins heiftugar deilur. Olli því að margir töldu hlutdrægni Akureyringa í dómnefnd og einnig að Þingeyingar höfðu vanist annars konar byltureglum en giltu á Akureyri.
Fjórða Íslandsglíman var hluti af dagskrá íþróttamóts er haldið var á Akureyri um miðjan júnímánuði 1909. Þetta mót var síðar kallað fyrsta Landsmót UMFÍ þótt það héti engu slíku nafni á þeim tíma. Nú virtist glímualdan á Akureyri hjöðnuð og var aðeins einn keppandi þaðan. Hinir voru úr sveitum Þingeyjarsýslu og nokkrir úr Eyjafirði. Mestum tíðindum sætti þó að tveir keppendur komu úr Reykjavík frá glímufélaginu Ármanni. Annar þeirra, Guðmundur Stefánsson sigraði og hafði þar með Grettisbeltið burt af Akureyri. Hefur það ekki átt afturkvæmt þangað. Í öðru sæti varð hinn Reykvíkingurinn, Sigurjón Pétursson, sem átti eftir að setja svip sinn rækilega á Íslandsglímuna. Nú var í fyrsta sinn glímt með glímubeltum á Íslandsglímu því báðir Ármenningarnir girtust glímubeltum svo og einn Þingeyingurinn, Pétur Sigfússon, Ólympíufari 1908. Eftir þetta voru alltaf notuð glímubelti á Íslandsglímu.

Íslandsglíman flytur til Reykjavíkur
Sigurganga Sigurjóns
Eftir að Guðmundur Stefánsson hafði beltið með sér til Reykjavíkur 1909 átti það aðsetur sitt þar næsta áratuginn og rúmlega það og oftast síðan hefur verið keppt um það í höfuðborginni. Á næstu Íslandsglímu 1910 var í fyrsta sinni keppt utanhúss en þá var glímt á timburpalli miklum sem reistur var í Barnaskólaportinu. Var glímt þar og á íþróttavellinum í Reykjavík allt til 1939 þegar farið var að glíma innanhúss í Reykjavík. Hefur alltaf síðan verið glímt innanhúss nema á Akureyri 1945 og 1952 þegar glímt var á palli á íþróttavellinum í Reykjavík.
Sigurjón Pétursson hóf sigurgöngu sína í glímu árið 1910 og sigraði þá fjögur skipti í röð. Fór hann fremstur í flokki glímukappa Ármanns sem gerðu garðinn frægan um það leyti en þó mátti vart á milli sjá hans og Hallgríms Benediktssonar sem tvívegis sigraði í Skjaldarglímu Ármanns en náði aldrei að hampa Grettisbeltinu þrátt fyrir marga fræga sigra í öðrum mótum. Vonbrigði áhorfenda voru töluverð árið 1912 þegar Sigurjón sigraði í þriðja skiptið að Hallgrímur var ekki meðal keppenda. Þá komu glímumenn beint til keppni frá Ólympíuleikunum í Stokkhólmi en þar kepptu þeir í glímu og hafði Hallgrímur sigrað Sigurjón og unnið keppnina. Voru á þessum árum flestir keppendur frá Ármanni en ávallt nokkrir að norðan og einnig af Suðurlandsundirlendi. Um mótið 1912 segir í blaðagrein: "Að þessu sinni voru þeir aðeins sjö sem keptu um glímukonungstignina og flestir fyrir þrábeiðni. Gaman verður að lifa þegar öll konungstign verður jafn lítið eftirsótt." Eins og sjá má á þessari tilvitnun var glíman þá farin að dala innan Ármanns og víðar og næsta ár 1913 mættu aðeins þrír kappar til að keppa við Sigurjón um beltið. Fleiri gáfu sig ekki fram og ekki er ólíklegt að ástæðan hafi m.a. verið geysilegir yfirburðir Sigurjóns Péturssonar sem var hreint ósigrandi. Æfingar voru ekki haldnar innan Ármanns um árabil og nú féll Íslandsglíman niður næstu fimm árin 1914 - 1918 og áttu ýmsir erfiðleikar af völdum heimsstyrjaldarinnar eflaust sinn þátt í því svo sem dýrtíð og eldiviðarskortur sem gerði ómögulegt að hita upp hugsanlegt æfingahúsnæði. Svo mikið er víst að glíman lá í dvala í Reykjavík og víðar á þessum tíma.

Íslandsglíman endurvakin
Íslandsglíman var haldin að nýju árið 1919 og var það glímukóngurinn sjálfur, Sigurjón Pétursson sem m.a. beitti sér fyrir því. Hafði hann litla ánægju af að virða fyrir sér Grettisbeltið óhreyft í sinni vörslu og nú kom fram ný reglugerð um beltið frá Grettisfélaginu sem enn var á lífi að nafninu til. Fimm kepptu. Allir töldu líklegt að Sigurjón myndi halda beltinu og hann sennilega sjálfur en svo fór að Tryggvi Gunnarsson, frjálsíþróttakappi úr höfuðstaðnum, sem lítið kunni til glímu en hafði ómælda snerpu og krafta ekki síður en keppnisskap, keyrði aðra keppendur niður á hælkrókum sínum. Sigurjón varð annar og svo fór einnig árið eftir en þá voru keppendur 15 og uppsveifla í glímunni. 1921 sigraði ungur lögfræðinemi úr Skagafirði, Hermann Jónasson sem síðar varð forsætisráðherra. Þrettán keppendur. Þessi glíma varð umtöluð fyrir hve illa var glímt og af mikilli harðneskju. Tveir meiddust illa og tveir aðrir gengu úr til að mótmæla glímulagi og lélegri dómgæslu. Dómnefndina skipuðu þrír ólympíufarar frá 1912, þeir Hallgrímur Benediktsson, Halldór Hansen og Sigurjón Pétursson og stóðu þeir sig sýnu lakar þar en í keppni á sínum tíma. Helsti keppinautur Hermanns var Magnús Sigurðsson frá Stóra-Fjalli sem tvívegis vann Ármannsskjöldinn á þessum árum en þótti glíma meira af kröftum en kunnáttu. Í bréfi Benedikts Waage forseta ÍSÍ frá þeim tíma segir: "Þessi Íslandsglíma var sú ljótasta og versta sem glímd hefur verið og munaði litlu að maður sem ekkert glímubragð kann yrði glímukóngur." Fjölmiðlar tóku í sama streng. Fljótlega eftir þetta var farið að keppa um fegurðarverðlaun í Íslandsglímunni til að sporna við ljótleikanum og var sérstakur gripur "Stefnuhornið" lengi í umferð. Guðni Albert Guðnason frá Súgandafirði gat sér mikinn orðstír í glímunum ´20 og ´21 því hann lagði jafnan glímukónginn og hlaut viðurnefnið "kóngabani."

Sigurður Greipsson birtist
Árið 1922 kemur nýr glímukóngur til sögunnar. Sigurður Greipsson frá Haukadal í Biskupstungum sigraði þá fimm sinnum í röð. Fór þá Grettisbeltið austur yfir fjall í fyrsta sinn á þessum árum. Árin 1925 og 26 voru keppendur flestir úr sýningarflokkum sem farið höfðu til Noregs og Danmerkur til glímusýninga og þóttu þeir sýna frábæra glímu. Helstu keppinautar Sigurðar voru kapparnir Þorgeir Jónsson frá Varmadal, síðar betur þekktur sem hestamaðurinn Geiri í Gufunesi og Þingeyingurinn Jörgen Þorbergsson. Báðir voru þeir snilldar glímumenn og fengu oftar en einu sinni Stefnuhornið.
1927 hætti Sigurður Greipsson keppni ósigraður og sneri sér að stofnun íþróttaskóla síns í Haukadal sem næstu fjörtíu árin útskrifaði marga glímukappa og ófáa glímukónga. Hefur engin stofnun á Íslandi orðið glímunni jafn heilladrjúg og skóli Sigurðar. Þá tók Þorgeir Jónsson beltið næstu tvö árin en við af honum tók risinn Sigurður Thorarensen sem bæði var stór og sterkur en einnig með ólíkindum mjúkur og fimur af svo stórum manni. Sigurður tók beltið sex sinnum á næstu árum og skiptist á sigrum við Lárus Salómonsson, heljarmennið af Snæfellsnesi sem sigraði þrisvar. Borgfirðingurinn Ágúst Kristjánsson gat sér á þessum árum mikið orð sem glímusnillingur og vann Stefnuhornið til eignar árið 1936. Á þessum árum stóð Glímufélagið Ármann í Reykjavík traustum fótum. Allir glímukappar landsbyggðarinnar sem fluttu til Reykjavíkur gengu í Ármann og fyrir kom að allir keppendur Íslandsglímunnar væru í Ármanni.
Árin 1938 - 40 brá svo við að vaskur hópur Vestmannaeyinga setti svip sinn á Íslandsglímuna og þótti glíma af léttleika og fimi. Þar var Sigurður Guðjónsson fremstur í flokki. Þetta voru nemendur Þorsteins Einarssonar glímusnillings árið 1932 sem hélt uppi glímuæfingum í Vestmannaeyjum af miklum krafti. Þessi þróun nam staðar þegar Þorsteinn flutti til lands og gerðist fyrsti íþróttafulltrúi ríkisins árið 1940.

Glæsimennið Guðmundur Ágústsson
Ýmsir ágætir kappar hömpuðu Grettisbeltinu þessi árin en fæstir meira en eitt ár. Árið 1943 kom til skjalanna einn glæsilegasti glímukappi sögunnar, Guðmundur Ágústsson frá Hróarsholti í Flóa. Guðmundur var íturvaxinn og stæltur, höfði hærri flestum og afl hans vissu fáir. Hann sigraði það ár í þremur stærstu mótum glímunnar, Skjaldarglímu Skarphéðins, Skjaldarglímu Ármanns og Íslandsglímunni. Ekki dró það úr afrekum hans að hann hlaut jafnan fegurðarverðlaun glímunnar þar sem þau voru veitt. Á þessum tíma var mikil samkeppni í glímunni og fjöldi öflugra glímukappa keppti við hann um tignina. Guðmundur hélt beltinu fimm ár í röð en hætti þá keppni vegna endurtekinna meiðsla. Seinni ár Guðmundar í glímukeppni var nafni hans Guðmundsson frá Núpi undir Eyjafjöllum yfirleitt í öðru sæti. Guðmundur Guðmundsson var frábær glímumaður og svo næmur að stigi andstæðingurinn eitt feilspor var jafnan komið mótbragð Guðmundar sem leiddi til falls. Þegar Guðmundur Ágústsson sté af stallinum tók nafni hans við og var glímukóngur næstu tvö árin 1948 og 1949.

Sigurganga Ármanns
Þriðji Sunnlendingurinn, Rúnar Guðmundsson frá Hurðarbaki í Flóa tók við konungstigninni árið 1950 eftir harða keppni við kornungan glímumann, Ármann J Lárusson úr Reykjavík. Ármann var kraftajötunn og kunnáttumaður í glímu, sonur Lárusar, glímukóngs á fjórða áratugnum og alinn upp af föður sínu við glímuiðkun í Ungmennafélagi Reykjavíkur, glímufélagi sem von bráðar skákaði hinu gamalgróna Ármannsfélagi hvað snerti fjölda keppenda og frammistöðu þeirra. Þeir Rúnar og Ármann háðu einvígi á hverju glímumóti um nokkurra ára skeið. Ármann tók beltið af Rúnari árið 1952 og Rúnar svaraði fyrir sig árið eftir. 1954 sigraði Ármann aftur enda var nú Rúnar erlendis. Nú hófst hin mikla sigurganga Ármanns J Lárussonar sem einsdæmi er í glímunni og nokkurri annarri íþrótt hérlendis. Ármann sigraði í Íslandsglímunni 14 ár í röð og 15 sinnum alls. Yfirburðir hans voru þvílíkir að hann tapaði einungis einu móti allan þennan tíma og aðeins örfáum viðureignum. Afar fáir góðir glímumenn gátu sagt frá því að hafa lagt Ármann og segja má að keppni þessara ára hafi snúist um hver náði öðru sæti. Kristján Heimir, bróðir Ármanns var fjögur ár í röð í öðru sæti og Guðmundur Steindórsson frændi hans tvívegis, en enginn náði þó að ógna veldi hans allan þennan tíma. Hlýtur Ármann að teljast sigursælasti glímumaður aldarinnar.

Sigtryggur og Sveinn
Árið 1968 hætti Ármann keppni í Íslandsglímu og þá sigraði Sigtryggur Sigurðsson KR. KR hafði þá nýlega endurvakið glímudeild sína í þriðja sinn en nú var UMFR horfið af sjónarsviðinu. Sigtryggur vann Grettisbeltið þrívegis. Sveinn Guðmundsson tók beltið af Sigtryggi 1969 þótt hann félli tvisvar því glíman var mjög jöfn á þessum árum. Sigtryggur vann aftur næstu tvö árin og árið 1970 telja margir að hafi verið haldin ein jafnsterkasta Íslandsglíma sem haldin hefur verið. Í öðru sæti var Sveinn og þriðja Jón Unndórsson, ungur KR-ingur og afar sterkur. Þá kepptu þrír Steindórssynir frá Haugi, Sigurður, Hafsteinn og Guðmundur og voru þeir í næstu sætum. Kunnugir töldu að allir þessir sex hefðu getað náð beltinu á góðum degi. Í næstu sætum voru þrír verðandi glímukóngar og þrír aðrir þekktir keppnismenn svo engir voru aukvisarnir í þessari frægu glímu.

Jón, Hjálmur og Skútustaðabræður
Jón Unndórsson sigraði tvívegis næstu árin en 1974 glímdi Hjálmur Sigurðsson beltið af honum í fámennri en sterkri Íslandsglímu. Hjálmur glímdi manna drengilegast og best en hirti minna um sigur. Árið eftir var komin röðin að Norðlendingum að endurheimta Grettisbeltið. Pétur Yngvason frá Skútustöðum sigraði 1975, þá undir merki Víkverja, öflugs glímufélags sem átti marga bestu glímumenn landsins innan sinna vébanda. Fyrsti formaður GLÍ og glímukóngur 1941, Kjartan Bergmann Guðjónsson stofnaði Víkverja og lagði mikla áherslu á góða glímu og drengilega enda báru lærisveinar hans af öðrum glímumönnum hvað þetta snerti. 1976 sigraði tvíburabróðir Péturs, Ingi Þór, sem alltaf keppti undir merki HSÞ. Þar með fór Grettisbeltið aftur til Norðurlands eftir 67 ára dvöl sunnan heiða. Hinir öflugu Skútustaðabræður svo að segja einokuðu Grettisbeltið næsta áratuginn og sigraði Ingi Þór fjórum sinnum og Pétur fimm sinnum, síðast 1988. Hann var þá elstur glímumanna til að bera titil glímukóngs, 36 ára gamall. Þrívegis á þessum árum, árin 1979 - 1981 var keppnisfyrirkomulagi Íslandsglímunnar breytt og keppt með útsláttarfyrirkomulagi í stað hópglímu. Mörgum þótti það nálgast helgispjöll að raska hinu rótgróna fyrirkomulagi þessa virðulega glímumóts og gáfust menn upp á þessu tiltæki en þetta fyrirkomulag er nú notað í Bikarglímu GLÍ og á þar betur heima að margra áliti.

Ólafur Haukur Ólafssonar Árið 1985 kemur til sögunnar ungur KR-ingur sem stöðvaði sigurgöngu Norðlendinga og bar höfuð og herðar yfir aðra glímumenn næstu árin. Þetta var Ólafur Haukur Ólafsson. Sigur hans var nokkuð óvæntur í fyrsta sinn en hann sigraði nú tvö ár í röð. Árið 1987 glímdi hinn fríski Mývetningur Eyþór Pétursson beltið af Ólafi eftir minnisstæða úrslitaglímu. Þóttust margir tæplega hafa séð jafn garpslega sókn og Ólafur sýndi þá og einnig jafn vasklega vörn af hendi Eyþórs sem var köttur liðugur og náði jafnan að verjast falli úr feiknalegum hábrögðum Ólafs. Ólafur var ekki með árið eftir en sigraði svo næstu þrjú árin en hætti þá keppni að mestu eftir Íslandsglímuna 1991. Á þessum árum máttu heita stórtíðindi ef Ólafur hlaut byltu og sigraði hann í flestum mótum sem hann tók þátt í. Ungur bóndasonur úr Þingvallasveit, risinn Jóhannes Sveinbjörnsson, var farinn að ógna veldi Ólafs og hreppti Grettisbeltið næstu tvö árin. Voru sigrar hans næsta öruggir en þriðja árið sagði skóladvöl fjarri glímuæfingum til sín og Orri Björnsson KR-ingur sigraði sannfærandi. Jóhannes náði beltinu aftur árið eftir, 1995 en síðan var komin röðin að hinum eldsnara Ingibergi Sigurðssyni.

Ingibergur á toppnum Hinn snarpi og fimi glímumaður úr Víkverja, Ingibergur Jón Sigurðsson hélt Grettisbeltinu í sjö ár, frá 1996-2002. Honum tókst þó einu sinni tekist að leggja alla sína andstæðinga, þ.e. sigra með fullu húsi á byltu. Ingibergur var ótvírætt fremstur meðal jafningja en þingeyski bóndinn Arngeir Friðriksson fylgdi honum fast eftir og var oft nærri því að hrifsa Grettisbeltið á þessum árum. Arngeir er lágvaxinn en stæltur og mjög flinkur glímumaður og lýsandi dæmi um það að þyngd og kraftar ráða engum úrslitum ein og sér í glímu. Hann hefur unnið öll mót glímunnar nema Íslandsglímuna. Ingibergur er afar fjölhæfur glímumaður og hefur getið sér orð fyrir frammistöðu sína í erlendum fangbrögðum. Hans aðalsmerki er að ljúka glímum með reisn, uppistandandi án þess að falla á eftir andstæðingi og þannig á glímukóngur að vera, öðrum gott fordæmi. Árið 2003 sigraði Ólafur Oddur Sigurðsson, HSK, Ólafur var síðustu árin búinn að ógna Ingibergi verulega m.a. var Ólafur Oddur þrisvar sinnum í öðru sæti á eftir Ingibergi þau ár sem Ingibergur var Glímukóngur. Íslandsglíman 2003 var mjög spennandi, keppendur voru 8 þar af 4 nýliðar, en í lokin voru þrír keppendur efstir og jafnir með fimm vinninga og þurftu þeir að glíma til úrslita. Það voru þeir Ólafur Oddur Sigurðsson, Pétur Eyþórsson og Arngeir Friðriksson. Í úrslitaglímunni gerðu Ólafur og Pétur jafnglími en unnu báðir Arngeir, þannig að Ólafur og Pétur þurftu að glíma aftur til úrslita. Ólafur sigraði í úrslitaglímunni og varð þar með Glímukóngur Íslands árið 2003.

GLÍMUKÓNGAR ÍSLANDS
Nr Ár Nafn Félag Heimili
1906 Ólafur Valdimarsson UMFA Akureyri
1907 Jóhannes Jósefsson UMFA Akureyri
1908 Jóhannes Jósefsson UMFA Akureyri
1909 Guðmundur A Stefánsson Ármann Reykjavík
1910 Sigurjón Pétursson Ármann Reykjavík
1911 Sigurjón Pétursson Ármann Reykjavík
1912 Sigurjón Pétursson Ármann Reykjavík
1913 Sigurjón Pétursson Ármann Reykjavík
1919 Tryggvi Gunnarsson Ármann Reykjavík
1920 Tryggvi Gunnarsson Ármann Reykjavík
1921 Hermann Jónasson Ármann Reykjavík
1922 Sigurður Greipsson Umf. Bisk. Haukadal, Árn.
1923 Sigurður Greipsson Umf. Bisk. Haukadal, Árn.
1924 Sigurður Greipsson Umf. Bisk. Haukadal, Árn.
1925 Sigurður Greipsson Umf. Bisk. Haukadal, Árn.
1926 Sigurður Greipsson Umf. Bisk. Haukadal, Árn.
1927 Þorgeir Jónsson Stefni Varmadal, Kjalanesi
1928 Þorgeir Jónsson Stefni Varmadal, Kjalanesi
1929 Sigurður Thorarensen Ármann Reykjavík
1930 Sigurður Thorarensen Ármann Reykjavík
1931 Sigurður Thorarensen Ármann Reykjavík
1932 Lárus Salómonsson Ármann Reykjavík
1933 Lárus Salómonsson Ármann Reykjavík
1934 Sigurður Thorarensen Ármann Reykjavík
1935 Sigurður Thorarensen Ármann Reykjavík
1936 Sigurður Thorarensen Ármann Reykjavík
1937 Skúli Þorleifsson Ármann Reykjavík
1938 Lárus Salómonsson Ármann Reykjavík
1939 Ingimundur Guðmundsson Ármann Reykjavík
1940 Ingimundur Guðmundssson Ármann Reykjavík
1941 Kjartan Bergm. Guðjónsson Ármann Reykjavík
1942 Kristmundur J Sigurðsson Ármann Reykjavík
1943 Guðmundur Ágústsson Umf. Vöku Hróarsholti, Árn
1944 Guðmundur Ágústsson Ármann Reykjavík
1945 Guðmundur Ágústsson Ármann Reykjavík
1946 Guðmundur Ágústsson Ármann Reykjavík
1947 Guðmundur Ágústsson Ármann Reykjavík
1948 Guðmundur Guðmundsson Ármann Reykjavík
1949 Guðmundur Guðmundsson Ármann Reykjavík
1950 Rúnar Guðmundsson Umf. Vöku Hurðarbaki, Árn.
1951 Rúnar Guðmundsson Ármann Reykjavík
1952 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1953 Rúnar Guðmundsson Ármann Reykjavík
1954 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1955 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1956 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1957 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1958 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1959 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1960 Ármann J Lárusson Umf. R Reykjavík
1961 Ármann J Lárusson Umf. Br.blik Kópavogur
1962 Ármann J Lárusson Umf. Br.blik Kópavogur
1963 Ármann J Lárusson Umf. Br.blik Kópavogur
1964 Ármann J Lárusson Umf. Br.blik Kópavogur
1965 Ármann J Lárusson Umf. Br.blik Kópavogur
1966 Ármann J Lárusson Umf. Br.blik Kópavogur
1967 Ármann J Lárusson Umf. Br.blik Kópavogur
1968 Sigtryggur Sigurðsson KR Reykjavík
1969 Sveinn Guðmundsson HSH Stykkishólmur
1970 Sigtryggur Sigurðsson KR Reykjavík
1971 Sigtryggur Sigurðsson KR Reykjavík
1972 Jón E Unndórsson KR Reykjavík
1973 Jón E Unndórsson KR Reykjavík
1974 Hjálmur Sigurðsson Umf. Víkverja Reykjavík
k 1975 Pétur V Yngvason Umf. Víkverja Reykjavík
1976 Ingi Þór Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1977 Ingi Þór Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1978 Ómar Úlfarsson KR Reykjavík
1979 Ingi Þór Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1980 Pétur V Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1981 Ingi Þór Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1982 Pétur V Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1983 Eyþór Pétursson HSÞ Baldursheimur Mývatnss.
1984 Pétur V Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1985 Ólafur H Ólafsson KR Reykjavík
1986 Ólafur H Ólafsson KR Reykjavík
1987 Eyþór Pétursson HSÞ Baldursheimur Mývatnss.
1988 Pétur V Yngvason HSÞ Skútustaðir Mývatnssveit
1989 Ólafur H Ólafsson KR Reykjavík
1990 Ólafur H Ólafsson KR Reykjavík
1991 Ólafur H Ólafsson KR Reykjavík
1992 Jóhannes Sveinbjörnsson HSK Heiðarbær Þingvallasveit
1993 Jóhannes Sveinbjörnsson HSK Heiðarbær Þingvallasveit
1994 Orri Björnsson KR Hafnarfjörður
1995 Jóhannes Sveinbjörnsson HSK Heiðarbær Þingvallasveit
1996 Ingibergur Jón Sigurðsson Ármann Kópavogur
1997 Ingibergur Jón Sigurðsson Umf. Víkverja Kópavogur
1998 Ingibergur Jón Sigurðsson Umf. Víkverja Kópavogur
1999 Ingibergur Jón Sigurðsson Umf. Víkverja Kópavogur
2000 Ingibergur Jón Sigurðsson Umf. Víkverja Kópavogur
2001 Ingibergur Jón Sigurðsson Umf. Víkverja Kópavogur
2002 Ingibergur Jón Sigurðsson Umf. Víkverja Kópavogur
2003 Ólafur Oddur Sigurðsson HSK Grímsnesi
2004 Pétur Eyþórsson Víkverja Reykjavík
2005 Pétur Eyþórsson KR Reykjavík
2006 Jón Birgir Valsson KR Reykjavík
2007 Pétur Eyþórsson KR Reykjavík
2008 Pétur Þórir Gunnarsson HSÞ Baldursheimur Mývatnss.
2009 Pétur Eyþórsson KR Reykjavík
2010 Pétur Eyþórsson Glímufélaginu Ármann Reykjavík
2011 Pétur Eyþórsson Glímufélaginu Ármann Reykjavík
2012 Pétur Eyþórsson Glímufélaginu Ármann Reykjavík
2013 Pétur Eyþórsson Glímufélaginu Ármann Reykjavík
2014 Pétur Eyþórsson Glímufélaginu Ármann
2015 Sindri Freyr Jónsson KR
2016 Ásmundur Hálfdán Ásmundsson ÚÍA Reyðarfirði
2017 Ásmundur Hálfdán Ásmundsson ÚÍA Reyðarfirði
2018 Ásmundur Hálfdán Ásmundsson ÚÍA Reyðarfirði

GLÍMUSNILLINGAR ÍSLANDS
Fegurðarverðlauna í Íslandsglímu er fyrst getið 1920. Þá hlaut Þorgils Guðmundsson frá Valdastöðum sérstök fegurðarverðlaun. Síðan gerist það árið 1924 að veitt eru fegurðarverðlaun, "Stefnuhornið" fyrir fagra glímu og fylgdi því titillinn "Glímusnillingur Íslands." Skyldi það vinnast til eignar fyrir að vinna það þrisvar í röð og svo fór árið 1936. Þá var gefinn til fegurðarverðlauna skjöldur úr fílabeini útskorinn af Ríkharði Jónssyni. Giltu sömu reglur um skjöldinn. Fegurðardómnefnd var skipuð þremur dómurum sem gáfu glímumönnum allt frá 0 til 10 stigum fyrir hverja glímu. Var svo reiknað meðaltal af einkunnum þeirra og stigahæsti glímumaðurinn hlaut fegurðarverðlaunin. Skjöldurinn vannst til eignar árið 1945 og voru þau ekki veitt lengi eftir það. Þó voru veitt fegurðarverðlaun árið 1951.
Þorsteinn Kristjánsson, glímusnillingur árið 1930 og þáverandi landsþjálfari GLÍ gaf bikar til fegurðarverðlauna árið 1970. Skyldi hann vera farandgripur og ekki vinnast til eignar. Þegar útsláttarglíman hóf göngu sína innan Íslandsglímunnar 1979 fórst fyrir að veita fegurðarverðlaun og hafa þau ekki verið veitt síðan. Til fróðleiks kemur hér listi yfir alla fegurðarverðlaunahafa:
Ár Nafn Félag Verðlaun 1920 Þorgils Guðmundsson Dreng silfurbikar 1924 Þorgeir Jónsson Stefni Stefnuhornið 1925 Ágúst Jónsson Ármann Stefnuhornið 1926 Jörgen Þorbergsson Ármann Stefnuhornið 1927 Jörgen Þorbergsson Ármann Stefnuhornið 1928 Þorgeir Jónsson Stefni Stefnuhornið 1929 Jörgen Þorbergsson Ármann Stefnuhornið 1930 Þorsteinn Kristjánsson Ármann Stefnuhornið og silfurbikar 1931 Georg Þorsteinsson Ármann Stefnuhornið 1932 Þorsteinn Einarsson Ármann Stefnuhornið 1933 Sigurður Thorarensen Ármann Stefnuhornið 1934 Ágúst Kristjánsson Ármann Stefnuhornið 1935 Ágúst Kristjánsson Ármann Stefnuhornið 1936 Ágúst Kristjánsson Ármann Stefnuhornið til eignar 1937 Sigurður Hallbjörnsson Ármann Fegurðarskjöldur 1938 Ágúst Kristjánsson Ármann Fegurðarskjöldur 1939 Skúli Þorleifsson Ármann Fegurðarskjöldur 1940 Kjartan B. Guðjónsson Ármann Fegurðarskjöldur 1941 Kjartan B. Guðjónsson Ármann Fegurðarskjöldur 1942 Jóhannes Ólafsson Ármann Fegurðarskjöldur 1943 Guðmundur Ágústsson Vöku Fegurðarskjöldur 1944 Guðmundur Ágústsson Ármann Fegurðarskjöldur 1945 Guðmundur Ágústsson Ármann Fegurðarskjöldur til eignar 1951 Rúnar Guðmundsson Ármann Silfurpeningur 1970 Hjálmur Sigurðsson Víkverja Silfurbikar 1971 Guðmundur Freyr Halldórss. Ármann Silfurbikar 1972 Hjálmur Sigurðsson Víkverja Silfurbikar 1973 Sigurður Jónsson Víkverja Silfurbikar 1974 Hjálmur Sigurðsson Víkverja Silfurbikar 1975 Pétur Yngvason Víkverja Silfurbikar 1976 Pétur Yngvason HSÞ Silfurbikar 1977 Pétur Yngvason HSÞ Silfurbikar 1978 Eyþór Pétursson HSÞ Silfurbikar TÖLFRÆÐI UM ÍSLANDSGLÍMUNA Glímukóngurinn, sigurvegari Íslandsglímunnar, er fremstur meðal jafningja í þjóðaríþróttinni. Því hefur hópur vaskra glímumanna haft metnað til að gyrðast Grettisbeltinu, sigurtákni glímunnar. Margir hafa verið kallaðir en fáir útvaldir eins og oft vill verða. 31 glímukóngar hafa verið krýndir í þau 93 skipti sem Íslandsglíman hefur verið haldin. Því má sjá að hver þeirra hefur til jafnaðar sigrað þrívegis. Alls hafa 301 glímumenn tekið þátt í Íslandsglímu 843 sinnum árin 1906 til 2003 að báðum árum meðtöldum. Þar með sést að í Íslandsglímunni hafa ríflega 9 keppendur verið til jafnaðar í hverju móti og hver þátttakandi keppt að meðaltali 2,8 sinnum. Nöfn allra keppenda eru þekkt nema þriggja neðstu manna árið 1912. Forföll og félagsaðild Eftir því sem næst verður komist hafa keppendur gengið frá glímunni 54 sinnum vegna meiðsla. Flest hafa þau verið minni háttar eftir því sem best er vitað en 13 sinnum hafa menn orðið fyrir liðhlaupi eða beinbroti. Það nemur 1,5 % af þátttöku. Þá hafa 15 keppendur gengið frá glímunni vegna óánægju með dómgæslu og þar vegur þyngst Íslandsglíman 1908 þegar 10 keppendur hættu af þeim sökum. Hinir 301 keppendur skiptast milli 21 félaga og sambanda og eru þau misfjölmenn sem vænta má. Flestir eru frá Glímufélaginu Ármanni í Reykjavík sem var félaga öflugast frá aldarbyrjun fram á sjöunda áratuginn en hefur ekki átt keppendur svo heitið geti síðustu árin. Þegar litið er yfir fjölda keppenda og hvaðan þeir koma og hvert þeir fara við félagaskipti er athyglisvert að sjá hversu margir Skarphéðinsmenn hverfa til Reykjavíkur og ganga í Ármann enda hafa allir glímukóngar Ármanns frá 1920 og fjölmargir liðsmenn að auki átt uppruna sinn í öðrum félögum. Norðlendingar og Sunnlendingar búa að sínu en Reykjavíkurfélögin fá liðsauka af landsbyggðinni. Hér á eftir fara 10 fjölmennustu félögin í Íslandsglímu og einnig uppruni keppenda þeirra og félagaskipti eftir að þeir hófu keppni í Íslandsglímu. Félag: Í fél. frá upphafi: Aðfluttir: Burtfluttir (hvert): Ármann 78 16 2 ( 2 KR) HSÞ + Þingeyingar 49 3 (1 Á, 2 UV ) HSK 39 15 (11 Á, 3 KR, 1 ÍR) KR 31 14 Umf. R yngra 21 8 (6 KR, 2 UBK) Umf. Ak. + Akureyri 16 Umf. Víkverji 14 3 UMSK 12 2 3 (1 Á, 1 KR, 1 UV) KV + Vestm.eyjar 10 UMSE 7 Ýmsir punktar Fjölmennasta Íslandsglíman var árið 1907 þegar 24 menn hófu keppni. 20 luku og hafa aldrei verið fleiri. 17 voru keppendur á hinni glæsilegu Alþingishátíðarglímu 1930. Fámennust var Íslandsglíman árin 1913 og 1952 þegar aðeins fjórir tóku þátt. Meðalfjöldi keppenda í Íslandsglímu er rúmlega níu. Kristján E Yngvason HSÞ hefur manna oftast tekið þátt í Íslandsglímu eða 19 sinnum, síðast árið 1998 þá 51 árs. Hinn mikli kappi Ármann J Lárusson keppti 18 sinnum, sigraði 15 sinnum og var þrívegis annar. Sannarlega glæsilegur ferill. Fimmtán sinnum kepptu glímukóngarnir norðlensku Eyþór Pétursson og Pétur Yngvason Íslandsglíman var haldin á Akureyri fjögur fyrstu skiptin og þá innanhúss. Síðan hefur hún oftast farið fram í Reykjavík og þá utanhúss allt til 1940. Síðan hefur hún verið haldin innanhúss nema tvisvar. 1945 á Akureyri og 1952 í Reykjavík. 17 sinnum hefur Íslandsglíman farið fram utan Reykjavíkur. Fyrst á Akureyri sem fyrr segir, Þá á Þingvöllum 1930 á Alþingishátíðinni. Síðan á Akureyri 1945 tengt ársþingi ÍSÍ. 1947 var glíman haldin í Haukadal til að fagna 20 ára afmæli skólans þar sem útskrifaði marga glímukappa. Á árunum 1977 til 1988 var Íslandsglíman oft haldin á Laugum og Húsavík til heiðurs norðlenskum glímukóngum. Árin 1993 og 94 var Íslandsglíman haldin í Mosfellsbæ, en frá 1995 til ársins 2001 í Reykjavík. Árið 2002 var Íslandsglíman haldin í Hafnarfirð og árið 2003 í Reykjavíki Jón M Ívarsson