Fegurðarverðlaun í glímu

Glíman er eins og flestir vita einstök íþrótt sem hefur þróast og orðið til á Íslandi. Hún tilheyrir þjóðlegum fangbrögðum sem finnast um víða veröld en hefur þrjú sérkenni sem hvergi hafa fundist annars staðar innan þessara íþrótta:
1. Stígandi. Í glímu stíga keppendur eftir föstum reglum sem þykir jafnvel minna á dans. Stígandinn er til þess fallinn að koma hreyfingu á glímuna og gera hana liprari og áferðarfallegri.
2. Upprétta staðan. Bannað er að bola. Í glímu skulu menn uppréttir standa en leyfilegt er að beygja sig fram þegar verið er að ljúka bragði.
3. Níð. Í glímu er bannað að níða niður andstæðinginn. Það þýðir að það má ekki fylgja honum of fast eftir í völlinn eða beita aflsmunum ólöglega.

Allt þetta er til þess fallið að varðveita fegurð glímunnar og viðurlög fylgja sé út af brugðið. Þessi sérstaða glímunnar hefur hefur að margra mati gefið tilefni til að veita verðlaun fyrir fagra glímu sem hvatningu til glímufólks að glíma vel, létt og fimlega.

Snemma á síðustu öld var farið að veita fegurðarverðlaun í glímu því mönnum þótti stundum kraftarnir bera þá fegurð ofurliði sem þeir vildu að glímumenn hefðu til að bera. Fyrstu fegurðarverðlaun í glímu voru veitt í Glímumóti Norðurlands 1908 og af og til eftir það. Stundum var hreinlega keppt í fegurðarglímu en það keppnisform náði ekki fótfestu því áhorfendum þótti það ekki nógu spennandi. Í Flokkaglímu Ármanns sem haldin var á þriðja og fjórða áratug 20. aldar voru veitt fegurðarverðlaun í hverjum þyngdarflokki og þegar fram í sótti þrenn fegurðarverðlaun í hverjum flokki.

Landsflokkaglíman, sem var Íslandsmót í þyngdarflokkum var stofnuð 1947 og þegar í upphafi voru þar veitt fegurðarverðlaun og mönnum veitt stig fyrir fagra glímu og glímuhæfni. Þessar verðlaunaveitingar lögðust niður eftir áratug eða svo.

Íslandsglíman hóf göngu sína 1906 og 1920 voru fyrst veitt í henni fegurðarverðlaun. Árið 1924 var Stefnuhornið, fagur verðlaunagripur, gefinn til fegurðarverðlauna í Íslandsglímunni. Það var silfurbúið horn sem var svo eftirsótt að til voru glímumenn sem töldu það meiri heiður að vinna Stefnuhornið og heita Glímusnillingur Íslands en verða glímukóngur. Lengi var keppt um Stefnuhornið en Ágúst Kristjánsson vann það í þriðja sinn í röð og þar með til eignar árið 1936. Ekkja hans gaf Minjasafni GLÍ hornið eftir hans dag.

Þá kom til sögunnar útskorinn skjöldur, skreyttur fílabeini. Þann skjöld vann Guðmundur Ágústsson glímukóngur til eignar árið 1945. Einnig hann er í eigu Minjasafnsins. Eftir það kom bikar til sögunnar sem fegurðarverðlaun en veiting hans féll niður þegar Íslandsglíman var glímd með útsláttarfyrirkomulagi árið 1979 og var ekki tekin upp aftur.

Mörgum þótti sjónarsviptir að fegurðarverðlaunum og árið 2006 tóku tólf unnendur glímunnar undir forystu Jóns M. Ívarssonar sig saman um að láta gera veglegan verðlaunagrip fyrir Íslandsglímuna. Kveikjan að þessu framtaki var hið sviplega andlát Hjálms Sigurðssonar sem var glímukóngur Íslands 1974 og vann fegurðarverðlaun glímunnar oftast allra þegar hann tók þátt í mótinu. Gripurinn var silfurbúið horn sem hlaut nafnið Hjálmshornið í minningu Hjálms. Hornið gerði Sveinn Sigurðsson gullsmiður. Þáverandi stjórn GLÍ var þessu mótfallin og kom í veg fyrir að hornið væri afhent á mótinu sjálfu en það var afhent í hófi eftir mótið og fegurðarglímukóngur var Pétur Eyþórsson. Pétur var yfirburðamaður í fegurð glímunnar næstu árin og vann hornið samfleytt átta sinnum til 2014 þegar hann hætti keppni með þeirri undantekningu að frændi hans Pétur Þórir Gunnarsson vann hornið 2008. Síðan hafa Sindri Freyr Jónsson, Ásmundur Hálfdán Ásmundsson og Einar Eyþórsson unnið hornið einu sinni hver og Pétur Þórir í annað sinn 2017. Öll árin sem Pétur Eyþórsson vann hornið var hann einnig glímukóngur.

Fljótlega komu upp raddir sem gagnrýndu það réttilega að konur væru settar hjá. Meðan ekki var til verðlaunagripur fyrir konur þá gáfu sömu aðilar og létu gera Hjálmshornið litla verðlaunagripi til þess að þær yrðu ekki settar hjá. Soffía Björnsdóttir vann þau í fyrsta sinn 2006 en Svana Hrönn Jóhannsdóttir 2007 og 2008. Það var ekki fyrr en 2009 þegar nýr formaður hafði tekið við hjá GLÍ að gengið var í það verkefni að gera verðlaunagrip fyrir konur. Þá var listakonan Sigga á Grund fengin til að skera út fagran grip sem hlaut nafnið Rósin og hefur síðan verið veittur sem fegurðarverðlaun kvenna.

Fyrst til að vinna Rósina 2009 var Elisabeth Patriarca. Svana Hrönn Jóhannsdóttir var fegurðarglímudrottning 2010 en síðan vann Marín Laufey Davíðsdóttir báða gripina næstu þrjú árin. Eva Dögg Jóhannsdóttir vann Rósina 2014 og 2015, Marín 2016 og 2017 en Jana Lind Ellertsdóttir er handhafi Rósarinnar 2018. Það hefur oftast farið saman að glímudrottningin hafi unnið Rósina en þó ekki alltaf. Þetta er í stuttu máli saga fegurðarverðlauna í glímu sem hafa fest sig í sessi og þykja nú ómissandi.

Jón M. Ivarsson tók saman 2018.