Skjaldarglíma Skarphéðins

Aðdragandi og upphaf

Upphaf Íþróttasambandsins Skarphéðins má rekja til fundar 13 Ungmennafélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum sem haldinn var að Þjórsártúni 24. júlí 1909. Þá kom til tals að ungmennafélögin á Suðurlandi héldu sameiginlegt mót næsta ár. Mótið var undirbúið með öðrum fundi næsta vetur og síðan boðað til mótsins með bréfi sem sent var öllum 23 Umf. í sýslunum þremur, Árnes- Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslum.

Þetta íþróttamót var svo haldið að Þjórsártúni 9. júlí 1910. Það var í raun fyrsta héraðsmót Skarphéðins þó sambandið sjálft væri ekki formlega stofnað fyrr en um haustið. Þar var fyrst keppt um Skarphéðinsskjöldinn sem var gerður til keppni í glímu og hefur jafnan verið farandgripur. Skjaldarglíman var höfuðíþrótt héraðsmótanna sem oftast voru haldin á Þjórsártúni og var þá glímt á palli utandyra. Síðasta Þjórsártúnsmótið var haldið 1969 og síðan þá hefur Skjaldarglíman oftast farið fram innan húss víðs vegar um héraðið.

Fyrsta Skjaldarglíman 1910
Þetta fyrsta íþróttamót Skarphéðins fór fram að Þjórsártúni í blíðskaparveðri þennan hásumardag. Geysilegur mannfjöldi sótti hátíðina. Var talið að þrjú þúsund manns hefðu komið þar og var svo látið um mælt að nálægar sveitir hefðu því nær tæmst af fólki. Mótið hófst með skrúðgöngu íþróttamanna og áhorfenda heiman frá bænum og upp á íþróttavöllinn. Var þar afgirt stórt svæði og fánum skreyttur pallur á því miðju til íþróttasýninga og ræðuhalda. Formaður mótsnefndar Guðlaugur Þórðarson frá Króktúni (sem um haustið varð fyrsti formaður sambandsins) setti samkomuna kl. 11 árdegis og bauð menn velkomna. Þá flutti Helgi Valtýsson kennari snjalla ræðu af miklum eldmóði og eggjaði æsku landsins lögeggjan til framsóknar og sjálfstæðis.

Klukkan tólf hófst kappglíma um silfurskjöldinn "Skarphéðinn" sem nefndin hafði látið gera til heiðurs besta glímumanni Suðurlands. Skjöldurinn var festur upp yfir glímupallinum og ekki laust við að keppendur litu til hans girndaraugum.

Glímuþátttakendur voru 18 talsins, úr öllum þrem sýslum Suðurlands og þrettán ungmennafélögum. Voru þeir allir klæddir sérstökum íþróttabúningi sem var hvít langerma skyrta og hvítar léreftsbuxur hnésíðar, utan yfir ullarsokka. Menn voru í sauðskinnskóm, girtir glímubeltum, og höfðu einnig belti á búningi sínum. Var harðlega barist á glímuvellinum í þrjá klukkutíma og voru þá úrslit fengin. Svo fór að fyrstu þrír keppendur voru sinn úr hverri sýslu sambandsins og voru þeim úthlutuð skrautskráð heiðursskjöl að launum en sigurvegarinn var skrýddur silfurskildinum góða sem um var keppt.

Sigurvegari varð Skaftfellingurinn Haraldur Einarsson frá Vík í Mýrdal. Hann var tvítugur að aldri og afrendur að afli. "Vel var hann vaxinn og glímdi liðlega" segja heimildir. Haraldur hlaut eina byltu, fyrir Helga Erlendssyni, Hlíðarenda sem reyndar varð skjaldarhafi 14 árum seinna. Annar að vinningum varð Rangæingurinn Ágúst Andrésson frá Hemlu í Landeyjum og þriðji Bjarni Bjarnason frá Auðsholti í Ölfusi, Árnessýslu.

Skarphéðinsskjöldurinn
Skarphéðinsskjöldurinn er hinn veglegasti gripur. Talið er að hann hafi kostað 50 krónur upphaflega sem var mikil fjárhæð á þeim tíma. Lögðu Ungmennafélögin fram tvær krónur hvert til að fjármagna smíði hans. Skjöldurinn var smíðaður af Oddi Oddssyni gullsmið á Eyrarbakka og réð hann einn allri gerð hans. Skjöldurinn er listasmíð og er þannig lýst í héraðsblaðinu Suðurlandi 1910:
"[Skjöldurinn er] smíðisgripur ágætur. - Var á hann greypt brjóstmynd af fornmanni með hjálm á höfði og í hendi exi allbreiða fyrir fetann, djarflegur og sigurfránn á svip. Þar undir stóð letrað: Lítt dró enn undan við þik, Skarphéðinn, ok ert þú vor fræknastur. Nafnið "Skarphéðinn" var greypt með höfðaletri á skjöldinn. Þá stóðu ennfremur á skildinum þessi orð úr Eddu: "En orðstírr deyr aldregi hveims sér góðan getr" Þess má geta að við skjöldinn hangir löng silfurfesti og í hvert sinn sem glímt er um hann er bætt á festina silfurpening með nafni sigurvegarans og ártali. Skal festinni tvívafið um háls sigurvegarans þegar skjöldurinn er afhentur.
Þar sem Skjaldarglíman hefur stundum fallið niður var Skjaldarglíman árið 2000 sú númer 76 en ekki 91 eins og vera ætti ef hún hefði farið fram óslitið.

Skjaldarglíman gegnum árin
Margir fræknir kappar sóttust eftir skildinum góða næstu árin og voru margir kallaðir en fáir útvaldir eins og gengur. Fyrstu árin var Bjarni Bjarnason síðar skólastjóri á Laugarvatni oft meðal keppenda og sigraði tvívegis. Keppendur frá Stokkseyri sigruðu nokkuð óvænt tvívegis en þá stóð glímuíþróttin með blóma á Stokkseyri. Hinn vörpulegi Landeyingur Magnús Gunnarsson var næstum ósigrandi þegar líða fór á annan áratug aldarinnar og sigraði þrívegis. Hann mátti þó lúta í lægra haldi árið 1916 þegar hinn lágvaxni en eldsnari nágranni hans Sighvatur Andrésson frá Hemlu sigraði óvænt. Þá voru aðeins þrír keppendur skráðir og Sighvatur gekk inn í keppnina fyrir þrábeiðni Sigurgríms í Holti sem þá var formaður Skarphéðins. Sighvatur gerði sér lítið fyrir og lagði alla þrjá með hælkrók hægri á vinstri. Þótti það frækilega gert því allir voru rumar miklir og kraftamenn og ekki minni maður en Sigurður Greipsson lá þar fyrir Sighvati. "Ég hélt ég myndi nú leggja þig, þegar ég var búinn að glíma við lurkana" varð Sigurði að orði þegar hann stóð upp eftir byltuna móti Sighvati.

Fegurðarglíma og yngri flokkar
Árið 1913 var tekin upp sú nýbreytni að keppt var í sérstakri fegurðarglímu á mótinu, óháð skjaldarglímunni. Hélst hún til 1920. Langoftast sigraði Ásgeir Eiríksson, síðar kaupmaður á Stokkseyri í fegurðarglímunni en 1918 sigraði Sigurður Greipsson. Árið 1923 eru komin til sögunnar fegurðarverðlaun í skjaldarglímunni og eru þau veitt flest árin til 1944 en ekki eftir það. Voru þau oftast silfurpeningur en stundum heiðursskjal. Árið 1924 er fyrst keppt í flokki drengja samhliða skjaldarglímunni. Drengjaglíman var haldin árlega til 1929 en féll þá niður. Aftur er haldin drengjaglíma árin 1941 og 1942 en síðan ekki söguna meir til ársins 1980. Þá var haldin keppni í unglingaflokki samhliða skjaldarglímunni. Síðan hefur flokkum smáfjölgað og nú er skjaldarglíman í raun flokkaskipt héraðsmót. 1988 kepptu konur í fyrsta sinn þega Bára Birgisdóttir Umf. Samhygð sigraði í flokki telpna 13 ára og yngri. Síðan hefur kvennaflokkum fjölgað og einnig er keppt í fullorðinsflokki þeirra. Stigakeppni héraðsmótsins í dag er fjórskipt: Flokkur drengja 16 ára og yngri, 17 - 20 ára og 21 árs og eldri að ógleymdum kvennaflokki. Eru farandbikarar til verðlauna í öllum flokkum.

Helstu kappar
Oft var fjörug keppni á skjaldarglímunni á árum áður því kappgjarna glímumenn fýsti að skarta skildinum. Fáum tókst þó að sigra oftar en einu sinni og mannaskipti á toppnum voru tíð. Helsta vitamínsprauta glímunnar var íþróttaskóli Sigurðar glímukappa Greipssonar í Haukadal, en þaðan kom árlega hópur frískra drengja útlærðir í glímu frá Sigurði. Flestir keppendur í skjaldarglímunni allt fram á áttunda áratuginn voru nemendur Sigurðar. Gestur Guðmundsson Hrunamaður sigraði tvívegis á þriðja áratugnum. Hann var sterkur en ekki bragðmargur glímumaður. Óskar Einarsson frá Búðarhóli í A-Landeyjum sigraði tvívegis kringum 1930. Hann þótti fimur og frískur glímumaður og glímdi talsvert í Vestmannaeyjum síðar. Hinn harðskeytti Steindór Gíslason frá Haugi sigraði tvívegis á fjórða tug aldarinnar og vann auk þess glímukeppni Landsmótsins í Haukadal 1940. 1943 sigraði glæsimennið Guðmundur Ágústsson frá Hróarsholti en það ár sigraði hann einnig í Skjaldarglímu Ármanns og Íslandsglímunni. 1945 varð Guðmundur Guðmundsson bóndi á Núpi skjaldarhafi og þar næst árið 1954. Er það lengsta hlé milli sigra í skjaldarglímunni. Sigurjón "sterki" frá Kolsholtshelli sigraði árin 1946 og ´48 og sveitungi hans, Rúnar Guðmundsson frá Hurðarbaki árin 1947 og ´50. Á þeim árum voru glímumenn Umf. Vöku með öflugustu glímusveit landsins. Grímsnesingurinn Gunnlaugur Ingason frá Vaðnesi sigraði tvívegis á sjötta áratugnum og svo kemur röðin að Haukadalsbræðrum. Greipur Sigurðsson varð yngsti skjaldarhafi Skarphéðins árið 1955, nýlega orðinn 17 ára. Hann sigrar alls fimm sinnum næstu árin en Bjarni bróðir hans tekur þó af honum skjöldinn árið 1957. Sigur hans stóð einnig tæpt árið á undan þegar Þormóður bóndi á Fljótshólum tapar úrslitaglímu móti Greip eftir að hafa lagt hann í fyrri umferð. Á veglegu afmælismóti Skarphéðins árið 1960 sigrar Greipur í 10 manna flokki en tapar skildinum árið eftir í hendur Sigurðar Steindórssonar frá Haugi, sonar Steindórs glímukappa.

Sigurganga Sigurðar Steindórssonar
Þá er komið að mestu sigurgöngu einstaks glímumanns í sögu skjaldarglímunnar. Sigurður heldur skildinum óslitið í tíu ár, allt til ársins 1970 þegar hann hætti keppni. Bræður hans þeir Steindór og Guðmundur fylgdu honum fast á eftir og sex sinnum skipaði hinn öflugi Guðmundur annað sætið án þess að ná nokkru sinni skildinum. Mátti heita að þeir Haugsbræður einokuðu sunnlenska glímu á þessum árum og smátt og smátt fækkaði þeim sem áræddu að mæta þeim á glímuvellinum enda stórir menn og sterkir. Svo var komið árið 1971 að einungis tveir þeirra mættu til keppni og hefur skjaldarglíman aldrei áður né síðan verið svo fámenn.

Niðurfall og endurreisn
Næstu sjö árin var engin skjaldarglíma haldin og fremur dimmt yfir glímunni á Suðurlandi. Íþróttaskólinn í Haukadal var þá liðinn undir lok og þjóðaríþróttin virtist nánast horfin af sléttum Suðurlands, sínu forna vígi. Már, sonur Sigurðar Greipssonar var þá kennari á Laugalandi í Holtum og dreif unga menn í Holtunum á glímuæfingar. Stjórn Skarphéðins og glímunefnd undir forystu Kristjáns Jónssonar formanns HSK og Guðna Guðmundssonar formanns nefndarinnar, drifu þá í að halda Skjaldarglímuna árið 1978 og þá vann Ólafur Pálsson í Saurbæ það afrek að glíma skjöldinn af Hafsteini Steindórssyni frá Haugi. Hafsteinn hafði geymt skjöldinn í sjö ár og mætti til leiks, kominn á fimmtugsaldur og varð annar. Kjartan Helgason í Haga fór þá að hóa saman ungum mönnum í Grímsnesi til glímuæfinga. Hann fór sjálfur fremstur í flokki og vann skjöldinn þrívegis á níunda áratugnum, síðast árið 1985. Þá komu til keppni tveir nýir keppendur sem áttu eftir að setja svip á glímuna á Suðurlandi, Jón M Ívarsson og Kjartan Lárusson. Jón var þá við topp keppenda en Kjartan við botninn. Árið eftir var Kjartan kominn í fremstu röð og sigraði næstu tvö árin. Hann hefur síðan verið einn helsti glímufrömuður landsins og þjálfað marga kunna kappa.

Jóhannes kemur til sögunnar
Árið 1988 kemur til sögunnar mesti afreksmaður seinni tíma á Suðurlandi, Jóhannes Sveinbjörnsson. Hann sigraði þá og næstu níu árin og var enda glímukóngur þrívegis á þeim árum. Jóhannes gekk ósigraður úr Skjaldarglímunni en var ekki með 1997 og síðan vegna náms erlendis og annarra ástæðna. Þá kom Helgi Kjartansson, sonur Kjartans glímufrömuðar Hvatarmanna og sigraði tvö næstu árin, enda þá með bestu glímumönnum landsins. Helgi hefur, illu heilli ekki getað verið með tvö undanfarin skipti vegna erfiðra meiðsla en er nú á batavegi. Stefán Geirsson, Umf. Samhygð sigraði 1999 og 2000, Stefán er næstyngstur þeirra er þennan titil hafa hlotið 17 ára gamall. Árin 2001 og 2002 sigraði Lárus Kjartansson, sonur Kjartans glímufrömuðar Laugdæla. Árið 2003 sigraði Ólafur Oddur Sigurðsson, Umf. Laugdælum. Ólafur hefur verið einn sterkast glímumaður landsins síðustu árin og hefur oft verið nálagt að vinna Skjöldinn.

SKJALDARHAFAR SKARPHÉÐINS
nr. Ár Nafn Umf. Heimili
1. 1910 Haraldur Einarsson Skarphéðinn Vík Mýrdal, V-Skaft
2. 1911 Bjarni Bjarnason Skarphéðinn Auðsholt Ölfusi, Árn
3. 1912 Páll Júníusson Stokkseyrar Syðra-Seli Stokks., Árn.
- 1913 Bjarni Bjarnason Skarphéðinn Auðsholti Ölfusi, Árn.
4. 1914 Bjarni Sigurðsson Stokkseyrar Ranakoti Stokkseyri, Árn.
5. 1915. Magnús Gunnarsson Dagsbrún Hólmum A-Land., Rang.
6. 1916 Sighvatur Andrésson Njáll Hemlu V-Landeyjum, Rang.
- 1918 Magnús Gunnarsson Dagsbrún Hólmum A-Land., Rang.
- 1920 Magnús Gunnarsson Dagsbrún Hólmum A-Land., Rang.
7. 1922 Stefán Diðriksson Hvöt Minni-Borg Grímsn., Árn.
8. 1923 Jón Jónsson yngri Bisk. Laug Biskupstungum, Árn.
9. 1924 Helgi Erlendsson Þórsmörk Hlíðarenda Fljótshlíð, Rang.
10. 1925 Jóhann Guðmundsson Hrun. Dalbæ Hrun., Árn.
11. 1926 Gestur Guðmundsson Hrun. Kaldbak Hrun., Árn.
- 1927 Gestur Guðmundsson Hrun. Kaldbak Hrun., Árn.
12. 1929 Óskar Einarsson Dagsbrún Búðarhóli A-Land., Rang.
- 1931 Óskar Einarsson Dagsbrún Búðarhóli A-Land., Rang.
13. 1932 Tómas Guðmundsson Dagsbrún Ljótarstöðum A-Land., Rang.
14. 1934 Skúli Þorleifsson Ingólfur Þverlæk Holtum, Rang.
15. 1935 Ólafur Sveinsson Trausti Stóru-Mörk V-Eyjaf., Rang.
16. 1936 Steindór Gíslason Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
- 1937 Steindór Gíslason Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
17. 1938 Jón Bjarnason Skeið. Hlemmiskeiði Skeið., Árn.
18. 1939 Davíð Hálfdánarson Hrun. Núpstúni Hrun., Árn.
19. 1941 Halldór Benediktsson Hvöt Miðengi Grímsnesi, Árn.
20. 1942 Steinn Guðmundsson Ingólfur Mykjunesi Holtum, Rang.
21. 1943 Guðmundur Ágústss. Vaka Hróarsholti Vill., Árn.
22. 1944 Einar Ingimundarson Vaka Vælugerðiskoti Vill., Árn.
23. 1945 Guðmundur Guðm. Trausti Núpi V-Eyjafjöllum, Rang.
24. 1946 Sigurjón Guðmunds. Vaka Kolsholtshelli, Vill.
25. 1947 Rúnar Guðmundsson Vaka Hurðarbaki Vill.h.hr., Árn.
- 1948 Sigurjón Guðmunds. Vaka Kolsholtshelli Vill., Árn.
- 1950 Rúnar Guðmundsson Vaka Hurðarbaki Vill.h.hr., Árn.
26. 1951 Gunnlaugur Ingason Hvöt Vaðnesi Grímsnesi, Árn.
- 1952 Gunnlaugur Ingason Hvöt Vaðnesi Grímsnesi, Árn.
27. 1953 Trausti Ólafsson Bisk. Kjóastöðum Bisk., Árn.
- 1954 Guðmundur Guðm. Trausti Núpi V-Eyjafjöllum, Rang.
28. 1955 Greipur Sigurðsson Bisk. Haukadal Bisk., Árn.
1956 Greipur Sigurðsson Bisk. Haukadal Bisk, Árn.
29. 1957 Bjarni Sigurðsson Bisk. Haukadal Bisk., Árn.
- 1958 Greipur Sigurðsson Bisk. Haukadal Bisk., Árn.
- 1959 Greipur Sigurðsson Bisk. Haukadal Bisk., Árn.
- 1960 Greipur Sigurðsson Bisk. Haukadal Bisk., Árn.
30. 1961 Sigurður Steindórss. Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
1962 Sigurður Steindórss. Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
- 1963 Sigurður Steindórss. Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
- 1964 Sigurður Steindórss. Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
- 1965 Sigurður Steindórss. Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
- 1966 Sigurður Steindórss. Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
- 1967 Sigurður Steindórss. Samhygð Haugi Gaulverjab.hr., Árn.
- 1968 Sigurður Steindórss. Selfoss Þorlákshöfn, Árn.
- 1969 Sigurður Steindórss. Selfoss Þorlákshöfn, Árn.
- 1970 Sigurður Steindórss. Þór Þorlákshöfn, Árn.
31. 1971 Hafsteinn Steindórss. Selfoss Selfossi, Árn.
32. 1978 Ólafur Pálsson Ingólfur Saurbæ Holtum, Rang.
33. 1980 Ómar Úlfarsson Hekla Hellu, Rang.
34. 1981 Kjartan Helgason Hvöt Haga Grímsnesi, Árn.
35. 1982 Már Sigurðsson Ingólfur Laugalandi Holtum, Rang.
36. 1983 Elías Pálsson Ingólfur Saurbæ Holtum, Rang.
- 1984 Kjartan Helgason Hvöt Haga Grímsnesi, Árn.
- 1985 Kjartan Helgason Hvöt Haga Grímsnesi, Árn.
37. 1986 Kjartan Lárusson Laugdælum Feney Laugarvatni, Árn.
- 1987 Kjartan Lárusson Laugdælum Feney Laugarvatni, Árn.
38. 1988 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum, Árn.
- 1989 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum, Árn.
- 1990 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum, Árn.
- 1991 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum, Árn.
- 1992 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum, Árn.
- 1993 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum, Árn.
- 1994 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum Árn.,
- 1995 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum Árn.,
- 1996 Jóhannes Sveinbjörns. Hvöt Heiðarbæ Þingvöllum, Árn.
39. 1997 Helgi Kjartansson Hvöt Haga Grímsnesi, Árn.
- 1998 Helgi Kjartansson Hvöt Haga Grímsnesi, Árn.
40. 1999 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2000 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
41. 2001 Lárus Kjartansson Laugdælum Feney Laugarvatni, Árn.
- 2002 Lárus Kjartansson Laugdælum Feney laugarvatni, Árn.
42. 2003 Ólafur Oddur Sigurðsson Laugdælum Borg Grímsnesi, Árn.
- 2004 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2005 Ólafur Oddur Sigurðsson Laugdælum Borg Grímsnesi, Árn.
- 2006 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2007 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2008 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2009 Ólafur Oddur Sigurðsson Laugdælum Selfoss
- 2010 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2011 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2012 Ólafur Oddur Sigurðsson Laugdælum Selfoss
- 2013 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.
- 2014 Stefán Geirsson Samhygð Gerðum Gaulv.b.hr., Árn.

TÖLFRÆÐI UM SKJALDARGLÍMUNA
Eftir því sem næst verður komist hafa 484 keppendur verið á þessum 79 mótum sem búið er að halda. Þar af hafa margir keppt oftar en einu sinni svo einstaklingar eru talsvert færri en ekki hefur gefist tími til að athuga það. Sé fjölda keppenda deilt í mótin kemur í ljós að keppendur hafa verið 6,35 að meðaltali í móti. Flestir voru þeir á fyrsta mótinu 18 talsins, næstflestir 1941, 16 og fæstir árið 1971 aðeins tveir.
Skjaldarhafar eru alls 42 og hafa unnið skjöldinn allt frá einu sinni upp í tíu sinnum en þeir Sigurður Steindórsson og Jóhannes Sveinbjörnsson bera þó höfuð og herðar yfir aðra í þessu tilliti. Yngstur skjaldarhafa var Greipur Sigurðsson, nýorðinn 17 ára og næstyngstur Stefán Geirsson, litlu eldri. Sá elsti er glímufrömuðurinn Kjartan Helgason sem var vann skjöldinn í þriðja sinn 1985, þá fertugur að aldri. Næstelstur er Már Sigurðsson sem vann skjöldinn 37 ára árið 1982. Hafsteinn Steindórsson var 35 ára þegar hann hlaut skjöldinn í fámennustu skjaldarglímunni 1971.
Þátttakendur hafa verið víðsvegar að úr héraðinu og hafa alls komið frá 26 íþrótta- og ungmennafélögum. Uppruni skjaldarhafa er einnig margvíslegur en flestir hafa komið frá Umf. Hvöt í Grímsnesi, sex talsins. Fimm hafa keppt fyrir Umf. Ingólf í Holtum, fyrir Umf. Vöku og Umf. Biskupstungna fjórir. Þrír fyrir Umf. Samhygð, Dagsbrún, Laugdæli og Hrunamenn, tveir fyrir Umf. Stokkseyrar og Umf. Trausta. Önnur félög hafa átt einn eða engan skjaldarhafa.

SKRÁ UM SKJALDARGLÍMUR SKARPHÉÐINS
Nr. Staður dagsetning fjöldi veður
1. Þjórsártún 9. júlí 1910 18 blíðskaparveður
2. Þjórsártún 9. júlí 1911 6 hellirigning og allhvasst, glímt inni
3. Þjórsártún 29. júní 1912 6 sæmilegt
4. Þjórsártún 30. júní 1913 8 ágætisveður
5. Þjórsártún 27. júní 1914 6 gott veður
6. Þjórsártún 26. júní 1915 5 rysjótt framan af, batnaði fyrir glímuna
7. Þjórsártún 24. júní 1916 4 þurrt fyrst, svo skúrir
- 1917 féll niður sökum dýrtíðar o.fl.
8. Þjórsártún 29. júní 1918 7 garri fyrst en lygndi svo
- 1919 féll niður vegna spönsku veikinnar
9. Þjórsártún 25. júlí 1920 5 ekki vitað
- 1921 féll niður ástæður ókunnar
10. Þjórsártún 1. júlí 1922 6 veður ágætt
11. Þjórsártún 30. júní 1923 6 ágætt
12. Þjórsártún 28. júní 1924 5 hið ákjósanlegasta
13. Þjórsártún 4. júlí 1925 5 úrhelli fyrst en stytti up
14. Þjórsártún 3. júlí 1926 6 ekki vitað
15. Þjórsártún 2. júlí 1927 8 ekki vitað
- 1928 féll niður sökum óveðurs
16. Þjórsártún 29. júní 1929 6 ekki vitað
- 1930 féll niður fellt niður vegna Alþingishátíðar
17. Þjórsártún 27. júní 1931 8 hvasst og kalt en bjart
18. Þjórsártún 2. júlí 1932 12 skúrir og kaldi. Létti til
- 1933 féll niður völlurinn ónothæfur og fé ekki handbært
19. Brautarholt 8. júlí 1934 10 glímt innanhúss
20. Brautarholt 23. júní 1935 9 glímt innanhúss vegna óveðurs
21. Brautarholt 28. júní 1936 7 ekki vitað
22. Þjórsártún 10. júlí 1937 7 ekki vitað
23. Þjórsártún 11. júlí 1938 6 ekki vitað
24. Þjórsártún 9. júlí 1939 12 gott veður
- 1940 féll niður fellt niður sökum Landsmóts UMFÍ
25. Haukadal 29. júní 1941 16 ekki vitað
26. Haukadal 28. júní 1942 10 rigning á köflum
27. Brautarholt 6. júní 1943 7 glímt var innanhúss
28. Þjórsártún 1. júlí 1944 8 veður var ágætt þennan dag
29. Þjórsártún 8. júlí 1945 7 hagstætt veður
30. Þjórsártún 23. júní 1946 7 ekki vitað
31. Þjórsártún 13. júlí 1947 3 slæmt veður, rigning og gola
32. Þjórsártún 4. júlí 1948 5 hið ákjósanlegasta veður
- 1949 féll niður glíman felld niður sökum slagveðurs
33. Þjórsártún 1. júlí 1950 8 "
34. Þjórsártún 8. júlí 1951 8 "
35. Þjórsártún 22. júní 1952 9 "
36. Þjórsártún 5. júlí 1953 11 "
37. Þjórsártún 11. júlí 1954 9 "
38. Þjórsártún 26. júní 1955 5 "
39. Þjórsártún 8. júlí 1956 4 "
40. Þjórsártún 23. júní 1957 7 "
41. Þjórsártún 6. júlí 1958 9 "
42. Þjórsártún 12. júlí 1959 5 veður hið besta og blíðasta
43. Þjórsártún 3. júlí 1960 10 nokkur rigning en stillt veður
44. Þjórsártún 10. júní 1961 4 ekki vitað
45. Þjórsártún 1. júlí 1962 7 "
46. Þjórsártún 7. júlí 1963 5 "
47. Þjórsártún 5. júlí 1964 5 "
48. Selfoss 13. júní 1965 4
49. Þjórsártún 3. júlí 1966 3 "
50. Þjórsártún 2. júlí 1967 3 "
51. Hlíðarendi 23. júní 1968 3 gott veður
52. Þjórsártún 6. júlí 1969 3 ágætt veður
53. Laugarvatn 3. ág. 1970 3
54. Selfoss 3. júlí 1971 2 glímt í barnaskólahúsinu
- 1972 - 1977 féll niður, skortur á glímumönnum
55. Laugaland 2. júní 1978 4 glímt var innanhúss og síðan
- 1979 féll niður dómarar mættu ekki og ófærð síðar
56. Selfoss 2. maí 1980 6
57. Laugaland 7. maí 1981 7
58. Borg 1. maí 1982 10
59. Goðaland 17. apríl 1983 7
60. Þjórsárver 5. maí 1984 5
61. Laugaland 8. apríl 1985 8
62. Borg 27. mars 1986 5
63. Laugaland 16. apríl 1987 5
64. Laugarvatn 31. mars 1988 5
65. Laugarvatn 23. mars 1989 4
66. Laugarvatn 12. apríl 1990 5
67. Laugarvatn 30. mars 1991 4
68. Laugarvatn 16. apríl 1992 4
69. Laugaland 8. apríl 1993 4
70. Laugarvatn 31. mars 1994 5
71. Laugaland 13. apríl 1995 5
72. Laugarvatn 30. mars 1996 5
73. Laugaland 22. mars 1997 5
74. Laugarvatn 4. apríl 1998 4
75. Laugaland 27. mars 1999 4
76. Laugarvatn 15. apríl 2000 6
77. Hvolsvöllur 7. apríl 2001 4
78. Laugarvatn 23. mars 2002 3
79. Hvolsvöllur 12. apríl 2003 4
80. Laugarvatn 3. apríl 2004 5
81. Laugaland 2. april 2005 4
82. Reykholt 25. mars 2006 4
83. Hvolsvöllur 20. april 2007 9
84. Reykholt 12. april 2008 6
85.Hvolsvöllur  28.febrúar 2009 5
86. Laugarvatn 20.febrúar 2010 6
87. Reykholt 26.febrúar 2011 4