Skjaldarglíma Ármanns

Hér á eftir birtast tvær greinar um Skjaldarglímu Ármanns. Fyrri greinin er eftir Hörð Gunnarsson en seinni greinin er eftir Jón M. Ívarsson. Grein Harðar Gunnarssonar um Skjaldarglímu Ármanns Sigurvegarar í Ármannsglímunni og Skjaldarhafar Ármanns. Glímufélagið Ármann var stofnað 15. desember 1888 og árið eftir stóð félagið fyrir kappglímu, Ármannsglímunni, sem haldin var 12 sinnum til og með árinu 1907. Í ársbyrjun 1908 var verðlaunagripur, Ármannsskjöldurinn, gefinn til kappglímunnar, og skildi hann veittur til heiðurs mesta glímumanni Reykjavíkur. Í umtali fór glímumótið að draga nafn af verðlaunagripnum og kallast Skjaldarglíma Ármanns. Síðan 1908 hefur verið keppt um gripinn árlega utan 5 ár um heimsstyrjöldina fyrri, og því um 92. Skjaldarglímu Ármanns að ræða, sem fram fór 8. febrúar 2004. Jafnframt telst það mót 104. Ármannsglíman frá 1889. Í þau 92 skipti, sem keppt hefur verið um Ármannsskjöldinn hafa Ármenningar unnið 42 sinnum, Kr-ingar 23, UMFR maður 8 sinnum, félagar í UV (Ungmennafélagið Víkverji) í 16 skipti, ÍK maður 2 sinnum og félagi í Umf Vöku 1 sinni. Alls hafa 36 glímumenn orðið Skjaldarhafar í þessi 92 skipti. Þeir, sem oftast hafa unnið Skjaldarglímu Ármanns eru: 1. Ólafur H. Ólafsson, KR, 9 sinnum. 2. Ármann J. Lárusson, UMFR, 8 sinnum. 3. Sigtryggur Sigurðsson, KR, 7 sinnum. 4.-5. Sigurjón Pétursson, Á, 6 sinnum. 4.-5. Ingibergur J. Sigurðsson, Á + UV, 6 sinnum. 6.-8. Lárus Salómonsson, Á, 4 sinnum. 6.-8. Guðm. Ágústsson, Umf Vöku + Á, 4 sinnum. 6-8. Pétur Eyþórsson, UV, 4 sinnum Í gegnum tíðina hefur meðal glímumanna heiðurstitillinn Skjaldarhafi Ármanns og að bera Ármannsskjöldinn gengið næst því að verða Glímukóngur Íslands og hlotnast Grettisbeltið til varðveislu til næstu Íslandsglímu. Hér á eftir fer skrá um alla sigurvegara í Ármannsglímunni frá 1889, sem jafnframt eru Skjaldarhafar frá 1908. Rétt er að vekja athygli á, að sigurvegari í 102. Ármannsglímunni 2002 varð Ólafur Oddur Sigurðsson, HSK, og í 2. sæti Arngeir Friðriksson, HSÞ, en þeir kepptu sem gestir. Vinningaflesti Reykvíkingurinn, Ingibergur J. Sigurðsson, UV, varð í þriðja sæti og hlaut titilinn Skjaldarhafi Ármanns samkvæmt reglum um Ármannsskjöldinn. Einnig fylgir í stuttu máli saga Ármannsskjaldarins, hvaða glímumenn hafa unnið hann til eignar og gefendur skjaldarinns. Sigurvegarar í Ármannsglímunni og Skjaldarhafar Ármanns 1889 Helgi Hjálmarsson 1890 Helgi Hjálmarsson 1891 – 1896 Féll niður 1897 Þorgrímur Jónsson 1898 Þorgrímur Jónsson 1899 Guðmundur Guðmundsson 1900 Féll niður 1901 Ásgeir Gunnlaugsson 1902 Ásgeir Gunnlaugsson 1903 Valdimar Sigurðsson 1904 Jónatan Þorsteinsson 1905 Jónatan Þorsteinsson 1906 Jónatan Þorsteinsson 1907 Hallgrímur Benediktsson 1908 Ármannsskjöldurinn gefinn. Mótið fór að draga nafn af skildinum. Skjaldarhafar hafa orðið: 1908 Hallgrímur Benediktsson Ármann 1909 Hallgrímur Benediktsson Ármann 1910 Sigurjón Pétursson Ármann 1911 Sigurjón Pétursson Ármann 1912 Sigurjón Pétursson Ármann 1913 Féll niður 1914 Sigurjón Pétursson Ármann 1915 Sigurjón Pétursson Ármann 1916 Féll niður 1917 Féll niður 1918 Féll niður 1919 Féll niður 1920 Sigurjón Pétursson Ármann 1921 Tryggvi Gunnarsson Ármann 1922 Friðbjörn Vigfússon Ármann 1923 Magnús Sigurðsson Ármann 1924 Magnús Sigurðsson Ármann 1925 Þorgeir Jónsson Í.K. 1926 Þorgeir Jónsson Í.K. 1927 Jörgen Þorbergsson Ármann 1928 Sigurður Thorarensen Ármann 1929 Jörgen Þorbergsson Ármann 1930 Sigurður Thorarensen Ármann 1931 Sigurður Thorarensen Ármann 1932 Lárus Salómonsson Ármann 1933 Lárus Salómonsson Ármann 1934 Lárus Salómonsson Ármann 1935 Ágúst Kristjánsson Ármann 1936 Ágúst Kristjánsson Ármann 1937 Skúli Þorleifsson Ármann 1938 Lárus Salómonsson Ármann 1939 Ingimundur Guðmundsson Ármann 1940 Sigurður Brynjólfsson Ármann 1941 Kjartan B Guðjónsson Ármann 1942 Kristmundur J Sigurðsson Ármann 1943 Guðmundur Ágústsson Umf. Vaka 1944 Guðmundur Ágústsson Ármann 1945 Guðmundur Ágústsson Ármann 1946 Guðmundur Ágústsson Ármann 1947 Sigurjón Guðmundsson Umf. Vaka 1948 Guðmundur Guðmundsson Ármann 1949 Guðmundur Guðmundsson Ármann 1950 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1951 Rúnar Guðmundsson Ármann 1952 Rúnar Guðmundsson Ármann 1953 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1954 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1955 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1956 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1957 Trausti Ólafsson Ármann 1958 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1959 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1960 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1961 Kristmundur Guðmundsson Ármann 1962 Trausti Ólafsson Ármann 1963 Hilmar Bjarnason Umf. Rvíkur 1964 Kristmundur Guðmundsson Ármann 1965 Sigtryggur Sigurðsson KR 1966 Sigtryggur Sigurðsson KR 1967 Sigtryggur Sigurðsson KR 1968 Ómar Úlfarsson KR 1969 Sigtryggur Sigurðsson KR 1970 Sigtryggur Sigurðsson KR 1971 Sigtryggur Sigurðsson KR 1972 Sigtryggur Sigurðsson KR 1973 Sigurður Jónsson Umf.Víkverji 1974 Sigurður Jónsson Umf.Víkverji 1975 Sigurður Jónsson Umf.Víkverji 1976 Þorsteinn Sigurjónsson Umf.Víkverji 1977 Guðmundur F Halldórsson Ármann 1978 Hjálmur Sigurðsson Umf.Víkverji 1979 Hjálmur Sigurðsson Umf.Víkverji 1980 Hjálmur Sigurðsson 1981 Ómar Úlfarsson KR 1982 Helgi Bjarnason KR 1983 Ólafur H Ólafsson KR 1984 Jón E Unndórsson Leikni 1985 Ólafur H Ólafsson KR 1986 Ólafur H Ólafsson KR 1987 Ólafur H Ólafsson KR 1988 Ólafur H Ólafsson KR 1989 Ólafur H Ólafsson KR 1990 Ólafur H Ólafsson KR 1991 Ólafur H Ólafsson KR 1992 Ólafur H Ólafsson KR 1993 Jón Birgir Valsson KR 1994 Ingibergur Sigurðsson Ármann 1995 Ingibergur Sigurðsson Ármann 1996 Orri Björnsson KR 1997 Ingibergur Sigurðsson Umf.Víkverji 1998 Ingibergur Sigurðsson Umf.Víkverji 1999 Pétur Eyþórsson Umf.Víkverji 2000 Ingibergur Sigurðsson Umf.Víkverji 2001 Pétur Eyþórsson Umf. Víkverji 2002 Ingibergur Sigurðsson UMF. Víkverja 2003 Pétur Eyþórsson UV 2004 Pétur Eyþórsson UV 2005 Pétur Eyþórsson KR 2006 Pétur Eyþórsson KR 2007 Pétur Eyþórsson KR Alls hafa 42 glímumenn orðið sigurvegarar í Ármannsglímunni frá 1889 og af þeim hafa 36 borið heiðurstitilinn Skjaldarhafi frá 1908. Eigendur og gefendur Ármannsskjaldarins. Fyrir 1962 vann sá maður skjöldinn til eignar, sem sigraði í Skjaldarglímunni þvisvar í röð, en síðan ef hann vinnur þrisvar í röð eða fimm sinnum alls. Alls hafa unnist til eignar 14 skildir og hófst keppni um þann 15da árið 2001. Eftirtaldir glímumenn hafa unnið Ármannsskjöldinn til eignar: 1. skjöldur: Sigurjón Pétursson, 1910-1912 2. skjöldur: Sigurjón Pétursson, 1914-1915, 1920. 3. skjöldur: Sigurður Thorarensen, 1928, 1930-1931 4. skjöldur: Lárus Salómonsson, 1932-1934 5. skjöldur: Guðmundur Ágústsson, 1943-1945 6. skjöldur: Ármann J. Lárusson, 1953-1955 7. skjöldur: Ármann J. Lárusson, 1958-1960 8. skjöldur: Sigtryggur Sigurðsson, 1969-1971 9. skjöldur: Sigtryggur Sigurðsson, 1973-1975 10. skjöldur: Sigurður Jónsson, 1973-1975 11. skjöldur: Hjálmur Sigurðsson, 1978-1980 12. skjöldur: Ólafur H. Ólafsson, 1985-1987 13. skjöldur: Ólafur H. Ólafsson, 1988-1990 14. skjöldur: Ingibergur J. Sigurðsson, 1994-1995, 1997-1998, 2000 15. skjöldur: Pétur Eyþórsson, 1999, 2001, 2003-2005 16. skjöldur: Pétur Eyþórsson, 2006-2007 Félagið mun sjálft hafa kostað gerð fyrstu skjaldanna beint eða með samskotum. Líkur benda til að Eggert Kristjánsson hafi gefið 6., 7. og 8. skjöldinn. Hörður Gunnarsson gaf 9., 10. og 11. skjöldinn og þeir Hörður og Sveinn Guðmundsson gáfu 12., 13. og 14. skjöldinn sameiginlega. Hörður Gunnarsson gaf 15. og 16. skjöldinn, sem byrjað var að keppa um 2001. Hörður Gunnarsson tók saman í janúar 2002. Uppfært 20. apríl 2007 Grein Jóns M. Ívarssonar um Skjaldarglímu Ármanns Aðdragandi og upphaf Glímufélagið Ármann er eitt af fáum íþróttafélögum landsins sem komið er á aðra öld að aldri til. Svo sérkennilega vill til að félagið á tvo afmælisdaga að minnsta kosti og kemur það til af því að starfsemi þess lá niðri á tímabili og endurvakning þess svo hraustleg að lengi vel var talið að þá væri stofndagur þess. Endurvakning Ármanns fór fram í ársbyrjun 1906 í Reykjavík. Þá hittust þar á nýjársdag tveir menn sem höfðu mikinn áhuga á glímu. Það voru Pétur Jónsson blikksmiður frá Skógakoti í Þingvallasveit sem á undanförnum árum hafði verið sjálfkjörinn forystumaður félagsins og Guðmundur Guðmundsson frá Eyrarbakka. Kom þeim saman um að kalla saman áhugamenn um glímu og endurvekja Ármann. Fór sú athöfn fram í Bárubúð 6. janúar 1906 og var Guðmundur kjörinn formaður. Þar með reis félagið úr dvala og hóf líflega starfsemi. Upphaf Ármanns og starf fyrstu árin er hvergi bókfest nákvæmlega en þeir ungu menn sem tóku þátt í glímuæfingum félagsins um og fyrir aldamótin 1900 töldu hálfri öld síðar að stofndagur þess væri 15. desember 1888. Formlegheit svo sem stjórnarkjör og fundir voru lítt á dagskrá fyrstu árin. Flest bendir til að þarna hafi verið á ferð hópur áhugamanna sem kom saman og æfði glímu þegar aðstæður leyfðu og nefndu félagsskap sinn Ármann. Svo virðist sem stjórn hafi fyrst verið kosin skömmu fyrir aldamót, líklega 1897-98. Hélst svo nokkur ár en starfsemi félagsins hafði hnignað þegar hér var komið sögu og helsta lífsmark glímunnar í Reykjavík var árleg glímukeppni á þjóðminningardaginn 2. ágúst sem árlega kosin Þjóðhátíðarnefnd og þá einkum Stúdentafélagið stóð fyrir kringum aldamótin. Þar kepptu glímumenn úr Reykjavík og einnig utan af landi. Endurvakning Ármanns varð sem fyrr segir 6. janúar 1906 og þá tók félagið formlega til starfa með kjörinni stjórn og færslu í gerðabækur. Lengi síðan var sá dagur eða réttara sagt dagurinn þar á eftir, 7. janúar 1906 talinn stofndagur Ármanns. Árið 1936 hélt félagið upp á 30 ára afmæli sitt með viðhöfn og árið 1938 fara gamlir félagar að gera athugasemdir við þessa aldursákvörðun. Var skipuð nefnd sem komst að fyrrnefndri niðurstöðu og því eltist Ármann í einu vetfangi um 17 ár og 23 daga. Fyrstu mót nýja Ármanns Hversu sem þessu er háttað, er það mála sannast að Ármann tók mikinn fjörkipp 1906 og hélt uppi rösklegum æfingum næstu árin. Fyrsta mót hins nýendurstofnaða félags var haldið í Bárubúð í apríl 1906. Þar kepptu 30 glímumenn á palli sem reistur var í salnum. Þar sigraði Hallgrímur Benediktsson, einn sá frískasti af hinum ungu og upprennandi glímumönnum Ármanns. Annar varð Jón Helgason frá Akureyri og þriðji varð Jónatan Þorsteinsson kaupmaður sem þá hafði í nokkur ár verið ókrýndur glímukonungur landsins. Árið eftir efnir Ármann enn til kappglímu í Breiðfjörðshúsi í febrúar 1907. Var mikil aðsókn áhorfenda og urðu margir frá að hverfa. Tuttugu og þrír liðsmenn félagsins glímdu fyrst kappglímu og síðan bændaglímu. Í kappglímunni sigraði Guðmundur Stefánsson, annar varð Sigurjón Pétursson og þriðji Pétur Gunnlaugsson. Í þriðja sinn héldu Ármenningar glímuskemmtun 13. mars 1908. Þá glímdu fyrst 12 ungir drengir og var það í fyrsta sinn sem svo ungir menn sýndu glímu. Þá glímdu 24 fullorðnir menn. Hér var meira um að ræða glímusýningu en keppni enda var ágóðanum varið til að styrkja þátttöku manna á Ólympíuleikana í London sem þá stóðu fyrir dyrum en þangað fóru sem kunnugt er þrír Ármenningar, þeir Hallgrímur Benediktsson, Sigurjón Pétursson og Guðmundur Sigurjónsson Hofdal. Fyrsta Skjaldarglíman Nú var svo komið að ákveðið var innan félagsins að láta gera sérstakan verðlaunagrip til heiðurs mesta glímumanni Reykjavíkur. Gjörður var fagur silfurskjöldur með táknmynd Ármanns undir Ármannsfelli, þeim sem félagið heitir eftir. Í fyrstu reglugerð um skjöldinn frá 1908 segir: "Vinni sami glímukappi Skjöldinn þrisvar í röð er Skjöldurinn upp frá því þess manns eign." Hefur svo farið stundum og hefur þá nýr skjöldur komið til keppni. Fyrsta Skjaldarglíman fór fram í Iðnó 1. apríl 1908. Aðsókn var mikil, húsið troðfullt út í hvert horn og urðu þó margir frá að hverfa. Dómarar voru þrír valinkunnir menn; Hermann Jónasson frá Þingeyrum, Matthías Einarsson læknir og Guðmundur Guðmundsson kaupmaður frá Eyrarbakka, fyrrum formaður félagsins. Keppendur voru tólf en tveir meiddust og luku því tíu þeirra glímunum. Fyrsti skjaldarhafinn varð Hallgrímur Benediktsson með fullt hús vinninga. Næstur honum kom Sigurjón Pétursson og þriðji varð Guðmundur A Stefánsson. Þessir þrír kappar voru ótvírætt sterkustu glímumenn Ármanns og einnig landsins á næstu árum og háðu marga fræga hildi sín á milli. Hallgrímur var þeirra fimastur talinn og sigraði í tveimur skjaldarglímum og á Olympíuleikunum 1912. Frægastur varð hann þó af sigri sínum í konungsglímunni 1907, þegar hann lagði Jóhannes glímukappa Jósefsson að velli sem hafði heitstrengt með hroka nokkrum að halda þar velli. Hallgrími tókst þó aldrei að hampa Grettisbeltinu en segja mátti að ekki mætti milli þessara þriggja sjá. Ármannsskjöldurinn Ármannsskjöldurinn er gerður úr silfri og er hinn vænsti gripur. Á honum er táknmynd Ármanns undir Ármannsfelli sem er þjóðsagnapersóna úr Þingvallasveit, en þangað átti frumkvöðull Ármanns, Pétur Jónsson frá Skógakoti rætur að rekja og mun hann hafa ráðið nafni félagsins. Hugmyndina að gerð skjaldarins átti Guðmundur Þorbjörnsson steinsmiður úr Borgarfirði sem var fyrsti glímukennari félagsins eftir endurreisn þess árið 1906. Feðgar tveir úr gullsmíðastétt í Reykjavík smíðuðu skjöldinn, þeir Erlendur Magnússon gullsmiður og Magnús sonur hans sem mun hafa gert mót skjaldarins. Ármannsskjöldurinn hefur þá sérstöðu öndvert við t.d. Skarphéðinsskjöldinn og Grettisbeltið að hann vinnst til eignar og hafa því margir skildir verið smíðaðir. Auðséð er á myndum að fyrsti skjöldurinn hefur verið annarar gerðar en þeir skildir sem síðan komu til sögunnar. Sama snið hefur verið á skildinum a.m.k. frá 1921 þegar fyrst var keppt um þriðja skjöldinn. Skjöldurinn hangir um háls sigurvegarans í einfaldri skrautlausri festi. Um miðja öldina og stundum síðar voru gerðir verðlaunapeningar í smækkaðri mynd skjaldarins og hafðir til verðlauna þriggja efstu manna í skjaldarglímu og jafnvel sem fegurðarverðlaun. Skjaldarglíman fram að fyrra stríði Næstu mót skjaldarglímunnar höfðu nokkuð sviplíkt yfirbragð. Aðalkeppnin stóð milli þremenninganna fræknu, Hallgríms, Guðmundar og Sigurjóns. Var keppnin oft hnífjöfn en þó aldrei sem í annarri glímunni 1909. Keppendur voru tólf og gengu tveir úr sem fyrra árið. Mikil aðsókn var að glímunni enda voru menn spenntir að sjá hver yrði hlutskarpastur úr tríóinu. Þá fór svo í fyrstu umferð að Guðmundur féll fyrir Hallgrími, Hallgrímur fyrir Sigurjóni og Sigurjón fyrir Guðmundi. Urðu þeir þá að glíma saman á ný en þá fór allt á sömu leið og voru þeir enn jafnir. Í þriðju umferð tókst Hallgrími að sigra báða. Í blaðagrein eftir mótið segir: "Mjög jafnt er á komið með þeim og ilt að greina hver fræknastur er þeirra. Þó mun Guðmundur vera þeirra handsterkastur, Hallgrímur einna fimastur og fótvissastur og Sigurjón brögðóttastur." Sigurjón sigursæll Í þriðju skjaldarglímunni árið 1910 voru aðeins fimm keppendur. Ennþá fór svo að garparnir þrír urðu jafnir í fyrstu umferð. Nú hafði Sigurjóni Péturssyni vaxið fiskur um hrygg og lagði hann báða félaga sína í annarri umferð. Þetta var upphafið að samfelldri sigurgöngu Sigurjóns sem ekki tapaði móti næstu átta árin. Þess ber þó að geta að glíman féll í öldudal á árum fyrri heimsstyrjaldar og var ekkert keppt í Reykjavík í a.m.k. fjögur ár. Árið 1911 hafði Guðmundur Stefánsson helst úr lestinni sökum annríkis og dvalar utan borgarinnar. Sigurjón sigraði örugglega og Hallgrímur varð annar en tók ekki oftar þátt í skjaldarglímu. Keppendur voru ellefu og nú komu í fyrsta sinn til leiks keppendur utan Ármanns. Ungmennafélag Reykjavíkur eldra sendi þrjá keppendur sem stóðu sig ágætlega Árið eftir, 1912, voru keppendur fjórtán og voru flestir þeirra frá Umf.R. Enn sigraði Sigurjón. Þar sem þetta var þriðji sigur hans í röð vann hann fyrsta Ármannsskjöldinn til eignar. Skjaldarglíman fellur niður - sveitaglíma haldin 1913 Árið 1913 féll skjaldarglíman niður. Orsök þess voru heiftarlegar deilur glímumanna Ármanns og Umf. Reykjavíkur. Bar það til að einn Ármenninga, Guðmundur Sigurjónsson Hofdal, gerðist glímukennari og síðar liðsmaður Umf. R og reyndi að fá sína fyrrum félaga til að ganga til liðs við félagið. Gengu blaðagreinar á víxl milli manna frá félögunum og var mikill rígur og metingur um styrkleika þeirra. Svo fór að efnt var til sveitaglímu milli félaganna til að skera úr hvort ætti meiri glímumenn, hið unga og upprennandi Umf. Reykjavíkur, eða Ármann, sem þeir töldu mjög á fallanda fæti. Var þetta fyrsta sveitaglíma sem sögur fara af hérlendis. Voru 10 menn í hvorri glímusveit. Fóru leikar svo að Ármann sigraði með nokkkrum yfirburðum eða 47 vinningum gegn 30. Nokkrir gengu úr vegna meiðsla og voru úrslit úr glímum þeirra látin halda sér. Árið 1914 voru tólf keppendur í Skjaldarglímunni og enn sigrar Sigurjón Pétursson. Helmingur keppenda var frá Ármanni og hinn helmingurinn frá Umf.R. Greinilegt er á úrslitum að glímunni er að hnigna innan Ármanns því að Sigurjóni frátöldum verma glímumenn félagsins botnsætin. Á þessum árum leggst Ármann í dvala og eru engir fundir haldnir innan félagsins allt til 1919. Svipaða sögu er að segja árið eftir, 1915. Sigurjón sigrar og á hæla hans fylgir Bjarni Bjarnason frá Laugarvatni sem keppti fyrir Umf. Skarphéðinn í Ölfusi í Skjaldarglímum Skarphéðins en fyrir Umf. R í Skjaldarglímum Ármanns. Slíkt var ekki óalgengt í þá daga og virðist því líkast að menn hafi getað valið sér félag að geðþótta til að keppa fyrir. Glímdu þeir Sigurjón og Bjarni þrjár lotur og mátti ekki milli sjá. Þriðji varð Guðbjörn Hansson lögregluvarðstjóri Umf.R. Voru flestir keppendur liðléttingar nema þessir þrír. Glíman virðist í afturför og í blaðagrein segir: "Milli Sigurjóns og Bjarna var eina glíman sem mönnum þótti nokkurs um vert og svo bættu þeir það upp með því að bolast. Að vísu átti þetta að vera kappglíma en ekki fegurðarglíma, en þegar kvöldið líður svo, að varla sést sögulegt bragð, og helsta glíman svo, að varla er lyft fótum frá jörð, þá ganga áhorfendur niðurlútir heim… Skemmtunin var ekki meira en svo vel sótt." Nú fór svo að Skjaldarglíman féll niður næsta árið (1916) og var ekki haldin aftur fyrr en 1920. Ástæður þessa voru vafalaust nokkrar. M.a.yfirburðir Sigurjóns Péturssonar sem gerðu það að verkum að minni spámenn treystust lítt við hann að eiga. Í öðru lagi komu engir keppnismenn fram innan félagsins sem orð væri á gerandi og var þá samkeppnin úr sögunni. Í þriðja lagi urðu erfiðleikar á upphitun æfingahúsnæðis sökum kolaskorts og dýrtíðar vegna stríðsins. Að auki höfðu allmargir vaskir menn innan Ármanns, svo sem Guðmundur Stefánsson, Guðmundur Sigurjónsson og Hallgrímur Benediktsson ýmist flutt erlendis eða hætt glímu og var þá skarð fyrir skildi. Í öllu falli var útkoman sú að æfingar lögðust niður hjá Ármanni þessi árin og var félagið í dái fram til loka heimsstyrjaldarinnar. Endurvakning glímunnar Árið 1919 var Íslandsglíman endurvakin fyrir forgöngu Sigurjóns Péturssonar. Tókst nú að blása lífi í Ármann og hófust æfingar í glímu um haustið og frjálsíþróttum um vorið. Var þá glímuflokkur Umf. R liðinn undir lok. 1. febrúar 1920 var á ný haldin Skjaldarglíma og voru keppendur ekki færri en fimmtán. Ekki er vitað um félagsaðild allra keppenda en líklegt er að flestir eða jafnvel allir hafi verið úr Ármanni. Allir keppendur voru nýir í Skjaldarglímu nema gamli skjaldarhafinn Sigurjón Pétursson sem hafði varðveitt skjöldinn án keppni síðustu fimm árin. Svo fór að Sigurjón sigraði en næstir honum komu Tryggvi Gunnarsson og Eggert Kristjánsson. Vann Sigurjón þar með annan skjöldinn til eignar og keppti ekki í Skjaldarglímu Ármanns eftir þetta. Árið eftir sigraði Tryggvi Gunnarsson. Hann var frjálsíþróttamaður mikill, snar og sterkur en þótti glíma gróft og illa. Hann hlaut þessa umsögn í blaði eftir Skjaldarglímuna 1921: "Glíma Tryggva Gunnarssonar er þess eðlis að almenningsálitið verður að taka í taumana. Menn sem glíma jafn illa og hrottalega og hann eiga ekki að fá að glíma opinberlega fyrr en þeir betra sig… Bolaglíman á að vera landræk." Greinarhöfundi varð að ósk sinni því Tryggvi glímdi ekki oftar. Á næstu árum sigraði Magnús Sigurðsson frá Stóra-fjalli tvívegis en hann þótti eiga það sammerkt með Tryggva að glíma meira af kröftum en kunnáttu. Árin 1925 og 26 hreppti hinn lágvaxni stælti og snarpi glímumaður Þorgeir Jónsson frá Varmadal skjöldinn. Nú hafði góðum glímumönnum fjölgað innan Ármanns en Þorgeir keppti fyrir Umf. Aftureldingu í Mosfellssveit. Reglugerðin um Ármannsskjöldinn var svo frjálslynd að þeim utanbæjarmönnum sem dvalist höfðu í Reykjavík síðustu fjóra mánuði fyrir skjaldarglímu var heimilt að keppa um skjöldinn. Var þessu breytt árið 1961. Hinn snjalli þingeyski glímumaður, Jörgen Þorbergsson, vann skjöldinn árin 1927 og 1929. Jörgen þótti glíma glæsilega og hlaut ósjaldan fegurðarverðlaun fyrir íþrótt sína. Tröllið frá Kirkjubæ, Sigurður Thorarensen, kom nú til skjalanna og hreppti skjöldinn þrívegis og vann þriðja Ármannsskjöldinn til eignar árið 1931. Næstu þrjú árin var hraustmennið Lárus Salómonsson ósigrandi og vann fjórða skjöldinn til eignar árið 1934. Lárus var Snæfellingur og var einnig glímukóngur á þessum árum líkt og Þorgeir og Sigurður. Borgfirðingurinn og glímusnillingurinn Ágúst Kristjánsson vann skjöldinn tvívegis árin 1935 og 36 og jafnan fylgdu fegurðarverðlaunin með því Ágúst var afburða fimur glímumaður og glímdi vel. Á þessum árum fylgdust yfirleitt að sigrar í Skjaldarglímunni og Íslandsglímunni en ekki tókst þó Ágústi að hreppa Grettisbeltið. Árið 1942 fór fram fjölmennasta Ármannsglíman fyrr og síðar. Keppendur voru tuttugu talsins og munaði mest um ungmennafélaga af Suðurlandi sem numið höfðu við íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal. Voru þessir tuttugu keppendur frá níu félögum. Kristmundur J Sigurðsson, Húnvetningur, sigraði í þessari miklu glímu en fékk þó byltu frá fyrrum skjaldarhafa, Kjartani Bergmann Guðjónssyni. Kjartan hlaut fegurðarverðlaun, fagran silfurbikar til eignar. Báðir þessir menn, Kjartan og Kristmundur voru glæsilegir glímumenn, grannvaxnir, stæltir og fimir. Báðir hlutu titil glímukóngs og skjaldarhafa samtímis eins og fleiri.+ Garpurinn Guðmundur Ágústsson Nú steig fram á sjónarsviðið garpurinn Guðmundur Ágústsson frá Hróarsholti í Flóa. Hann sigraði næstu fjögur árin og keppti fyrsta árið undir merkjum ungmennafélagsins Vöku í Villingaholtshreppi. Eftir það gekk Guðmundur í Ármann eins og reyndar flestir landsbyggðarmenn sem til Reykjavíkur komu og æfðu glímu. Guðmundur hlaut einnig oftast fegurðarverðlaun fyrir glímu þegar hann sigraði í keppnum og dró það síst úr aðdáun þeirri sem hann vakti fyrir afrek sín í glímunni. 1945 sigraði hann þriðja skiptið í röð og vann þá til eignar fimmta Ármannsskjöldinn. Árið 1947 urðu þau tíðindi að Sigurjón "sterki" Guðmundsson, sveitungi Guðmundar sigraði og annar Árnesingur, Gunnlaugur Ingason, varð annar. Náði Guðmundur Ágústsson aðeins þriðja sæti og var það eina mótið sem hann tapaði á ferlinum eftir að hann komst á toppinn 1943. Eftir þetta hætti hann keppni í Ármannsglímu. Guðmundur Guðmundsson frá Núpi undir Eyjafjöllum fylgdi nafna sínum Ágústssyni fast eftir á glímumótum og að honum frágengnum sigraði Guðmundur Guðmundsson léttilega á tveim næstu Skjaldarglímum. Eftir það hætti Guðmundur glímukeppni í höfuðstaðnum og flutti aftur undir Eyjafjöllin. Næstu árin bitust tveir ungir og harðfengir garpar um skjöldinn, hinn týhrausti Ármann J Lárusson úr Umf. Reykjavíkur og hinn hávaxni og sinastælti Rúnar Guðmundsson frá Hurðarbaki í Flóa, sveitungi þeirra Guðmundar Ágústssonar og Sigurjóns Guðmundssonar. Rimma Rúnars og Ármanns Árið 1950 sigraði kornungur Reykvíkingur, Ármann J Lárusson, aðeins 17 ára gamall og yngstur allra skjaldarhafa. Ármann nam glímuna ungur af föður sínum, hinum fræga glímukóngi og skjaldarhafa Lárusi Salómonssyni sem var helsti glímukennari Umf.R. Flóamennirnir Sigurjón og Rúnar gengu næst Ármanni og tvö næstu árin er Rúnar skjaldarhafi. Seinna árið átti Rúnar umdeilda viðureign við neðsta mann mótsins og hlaut byltu. Tíu viðureignum síðar tilkynnir dómnefnd að þeir skuli glíma upp aftur og vann þá Rúnar. Var þetta atvik vægast sagt umdeilt en ekki urðu eftirmál svo vitað sé. Ármann velti Rúnari úr sessi árið eftir og sigraði næstu fjögur árin og vann til eignar Ármannsskjöld nr. 6. Á þessum árum voru flestir keppendur frá Ungmennafélagi Reykjavíkur sem tvímælalaust var öflugasta glímufélag landsins. Aðrir keppendur voru frá Ármanni og ungmennafélögum austanfjalls og einstaka frá KR en glímudeild félagsins sofnaði í annað sinn um 1954. Söguleg skjaldarglíma - Trausti vinnur Skjaldarglíman 1957 varð söguleg í meira lagi og bar margt til. Fyrirfram var búist við sigri Ármanns J sem fór fremstur í fríðum flokki félaga sinna frá Ungmennafélagi Reykjavíkur. Voru átta af tíu keppendum frá félaginu, einn var frá Umf. Vöku og aðeins einn var frá Glímufélaginu Ármanni, hinu fornfræga félagi sem glíman var kennd við. Ármann tefldi nú fram Trausta Ólafssyni, ungum og vöskum manni úr Biskupstungum sem hafði unnið Skjaldarglímu Skarphéðins árið áður og var nú genginn til liðs við Ármann. Svo fór að Trausti lagði alla sína keppinauta og Ármann J tapaði nú sínu fyrsta (og eina) glímumóti á ferlinum frá því hann komst á toppinn árið 1954. Bylta Ármanns móti Trausta var afgerandi, en næsti andstæðingur Trausta á eftir þeirri glímu var Kristján Heimir, bróðir Lárusar, afar sterkur glímumaður sem ætlaði sér nú að hefna bróður síns. Lagði Kristján Trausta tvívegis en byltan dæmd utan vallar í bæði skiptin. Svo þegar Trausti skellti Kristjáni á svipaðan hátt og það dæmd bylta taldi hann þetta samsæri dómara gegn sér en dómarar munu allir hafa tilheyrt Ármanni. Reiddist Kristján Heimir stórlega og þá ekki síður Lárus, faðir þeirra bræðra. Þegar menn stilltu sér upp til verðlaunaafhendingar lét Lárus óánægju sína í ljós með því að yfirgefa salinn ásamt flestum keppendum Umf.R. Ármann, þáverandi skjaldarhafi, fékk því til leiðar komið að þeir mættu allir til afhendingar verðlauna úr hendi Benedikts G Waage, forseta ÍSÍ. Þegar kom að Kristjáni Heimi sem hlaut þriðja sæti, hrópaði hann til Benedikts að réttara væri að afhenda dómurunum peninginn og sló hann úr hendi forsetans. Urðu nokkur eftirmál sem voru þó úr sögunni í næstu Skjaldarglímu. Árið eftir, 1958 sigraði Ármann örugglega, enda var nú Trausti erlendis við nám og gat ekki varið titil sinn. Að vanda voru flestir keppendur frá Umf.R. Ármann vann næstu tvö ár einnig og vann til eignar sjöunda Ármannsskjöldinn. Hafði hann þá sigrað átta sinnum alls í Skjaldarglímunni og oftast allra. Breytt reglugerð - Ármann J utangarðs Árið 1961 var reglugerð Skjaldarglímu Ármanns breytt í veigamiklu atriði. Í stað þess ákvæðis að keppendur mættu keppa fyrir önnur félög ef þeir hefðu átt búsetu í Reykjavík fjóra mánuði fyrir mótið, kom ákvæði þess efnis að keppendum væri skylt að vera í félögum innan vébanda ÍBR. Ármann J Lárusson hafði nú gengið til liðs við Umf. Breiðablik í Kópavogi og varð því sjálfkrafa útilokaður frá keppni í Skjaldarglímu. Vildu rætnar tungur meina að sá hefði einmitt verið tilgangurinn með þessari reglugerðarbreytingu. Ungmennafélag Reykjavíkur var nú mjög á fallanda fæti og lagði upp laupana árið 1963. Færðist þá nýtt líf í glímudeild KR og nýtt Ungmennafélag, Víkverji, var stofnað í Reykjavík af Kjartani Bergmann. Hafði það einkum glímu á stefnuskrá sinni. Ármann var þó ekki dauður úr öllum æðum og sigraði Ármenningurinn Kristmundur Guðmundsson tvívegis á næstu árum og Trausti Ólafsson í annað sinn árið 1962. Hilmar Bjarnason, þrautreyndur glímumaður, varð síðastur liðsmanna Ungmennafélags Reykjavíkur til að hampa skildinum árið 1963. Sigtryggur sjöfaldur skjaldarhafi Nú kemur til sögunnar Sigtryggur Sigurðsson sem fór fremstur í flokki ungra og kappgjarnra manna í hinni nýendurvöktu glímudeild KR. Sigtryggur sigraði nú næstu þrjú árin og vann áttunda skjöldinn til eignar árið 1967. Var nú svo komið að flestir keppendur í Skjaldarglímu Ármanns voru frá nýju félögunum KR og Víkverja og stundum ekki nema einn frá Ármanni, sem mátti muna sinn fífil fegri. Árið 1968 brá svo við að Sigtryggur lenti í fjórða sæti en annar KR-ingur, Ómar Úlfarsson, sigraði í mjög jafnri keppni. Tæpum þriðjung viðureigna lauk með jafnglími. Sigtryggur sigraði aftur í næstu fjögur skipti og bætti níunda skildinum í safn sitt árið 1971. Hann sigraði einnig árið eftir og hafði þá sigrað sjö sinnum í Skjaldarglímu Ármanns. Víkverjar færast í aukana Árið 1973 sigraði Sigurður Jónsson Umf. Víkverja eftir úrslitaglímu við Ómar Úlfarsson KR. Voru glímumenn þessara félaga mest áberandi á glímumótum áttunda áratugsins. Áhugamenn um glímu töldu ólíku saman að jafna um glímulag þessara félaga. KR-ingar glímdu margir af kappi miklu og þó meira af kröftum meðan Víkverjar voru meira þekktir fyrir mýkt og lipurð og þó mest fyrir hvað þeir glímdu drengilega og níðlaust. Var jafnvel talað um "ballettdansara Vikivaka" af þeim sem ekki höfðu slíkan léttleika til að bera. Sigurður sigraði þrjú ár í röð og vann til eignar tíunda Ármannsskjöldinn. "Hrútfirðingurinn sterki" Þorsteinn Sigurjónsson sigraði næst og þá kom röðin óvænt að Ármenningum sem ekki höfðu verið ýkja áberandi í sínu eigin glímumóti undanfarið. Guðmundur Freyr Halldórsson, þjálfari Ármenninga sem hafði verið í eldlínunni hálfan annan áratug og var reynslumikill og kænn glímumaður sigraði árið 1977. Hjálmur Sigurðsson Víkverja sigraði svo þrjú næstu skipti og hlaut til eignar ellefta Ármannsskjöldinn árið 1980. Hjálmur var talinn glíma afburða vel og einkum rómaður fyrir góðan viðskilnað í glímulok. Þótti hann alltaf til fyrirmyndar á glímuvelli og utan. 1981 sigrar Ómar Úlfarsson öðru sinni og voru þá liðin 13 ár síðan hann hlaut skjöldinn í fyrra sinn. Hefur enginn glímumaður hlotið skjöldinn með jafn löngu millibili og hann. Ólafur fremstur KR-inga Næstu árin voru glímumenn KR mest áberandi í glímum höfuðstaðarins. Glímufélagið Ármann mátti heita horfinn af sjónarsviðinu og Víkverjum fór hnignandi. Ólafur Haukur Ólafsson, ungur og stæltur KR-ingur sigraði árið 1983 en árið eftir var hann sigraður af Jóni Unndórssyni, fyrrum félaga sínum sem keppti nú undir merki Leiknis í Breiðholti og var eini félaginn í glímudeild Leiknis. Árið eftir endurheimti Ólafur skjöldinn og var á næstu árum ósigrandi með öllu. Sigraði Ólafur næstu átta árin og vann til eignar tvo Ármannsskildi númer tólf og þrettán. Sigraði hann níu sinnum alls í Skjaldarglímunni og hefur enginn sigrað oftar. Nú fór Skjaldarglímunni hins vegar að hnigna verulega og hefur ekki borið sitt barr á síðustu árum. Keppendur voru oft aðeins frá þremur upp í sex talsins. 1985 gerðist það í fyrsta sinn að enginn keppandi var frá Ármanni í sjálfri Skjaldarglímu Ármanns. Hafa þeir verið heldur fáir síðan. Voru keppendur frá KR í meirihluta þessi ár en mest voru það ungir piltar sem áttu eftir að láta meira að sér kveða. Einn þeirra, Jón Birgir Valsson, sigraði árið 1993 þegar Ólafur Haukur hætti að keppa í Skjaldarglímu. Ingibergur síðasti skjaldarhafi Ármanns og aldarinnar Árin 1994 og 95 sigrar Ingibergur Sigurðsson undir merki Ármanns. Ingibergur er sonur Sigurðar Jónssonar, skjaldarhafa 1973 - 75. Orri Björnsson KR-ingur sigrar 1996 en Ingibergur næstu tvö árin og nú undir merki Víkverja en hann steig sín fyrstu glímuspor hjá því félagi og hefur verið þar síðan. Eftir það hefur Ármann ekki átt keppendur í skjaldarglímu. Næst síðasta ár aldarinnar glímdi hinn léttglímandi félagi Ingibergs, Pétur Eyþórsson, skjöldinn af honum en aldamótaárið 2000 sigrar Ingibergur enn og nú í fimmta sinn. Þar með vann hann til eignar 14. skjöld Ármanns á sjö árum. Ingibergur sigraði einnig árið 2002. Árin 2001, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007 sigraði Pétur Eyþórsson. SKJALDARHAFAR ÁRMANNS Nr. Ár Nafn Félag Annað 1908 Hallgrímur Benediktsson Ármann 1909 Hallgrímur Benediktsson Ármann 1910 Sigurjón Pétursson Ármann 1911 Sigurjón Pétursson Ármann 1912 Sigurjón Pétursson Ármann 1. skjöldur til eignar 1913 ekki glímt 1914 Sigurjón Pétursson Ármann 1915 Sigurjón Pétursson Ármann 1916 - 1919 ekki glímt 1920 Sigurjón Pétursson Ármann 2. skjöldur til eignar 1921 Tryggvi Gunnarsson Ármann 1922 Friðbjörn Vigfússon Ármann 1923 Magnús Sigurðsson Ármann 1924 Magnús Sigurðsson Ármann 1925 Þorgeir Jónsson Umf. Afturelding 1926 Þorgeir Jónsson Umf. Afturelding 1927 Jörgen Þorbergsson Ármann 1928 Sigurður Thorarensen Ármann 1929 Jörgen Þorbergsson Ármann 1930 Sigurður Thorarensen Ármann 1931 Sigurður Thorarensen Ármann 3. skjöldur til eignar 1932 Lárus Salómonsson Ármann 1933 Lárus Salómonsson Ármann 1934 Lárus Salómonsson Ármann 4. skjöldur til eignar 1935 Ágúst Kristjánsson Ármann 1936 Ágúst Kristjánsson Ármann 1937 Skúli Þorleifsson Ármann 1938 Lárus Salómonsson Ármann 1939 Ingimundur Guðmundsson Ármann 1940 Sigurður Brynjólfsson Ármann 1941 Kjartan B Guðjónsson Ármann 1942 Kristmundur J Sigurðsson Ármann 1943 Guðmundur Ágústsson Umf. Vaka 1944 Guðmundur Ágústsson Ármann 1945 Guðmundur Ágústsson Ármann 5. skjöldur til eignar 1946 Guðmundur Ágústsson Ármann 1947 Sigurjón Guðmundsson Umf. Vaka 1948 Guðmundur Guðmundsson Ármann 1949 Guðmundur Guðmundsson Ármann 1950 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1951 Rúnar Guðmundsson Ármann 1952 Rúnar Guðmundsson Ármann 1953 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1954 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1955 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 6. skjöldur til eignar 1956 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1957 Trausti Ólafsson Ármann 1958 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1959 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1960 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 7. skjöldur til eignar 1961 Kristmundur Guðmundsson Ármann 1962 Trausti Ólafsson Ármann 1963 Hilmar Bjarnason Umf. Rvíkur 1964 Kristmundur Guðmundsson Ármann 1965 Sigtryggur Sigurðsson KR 1966 Sigtryggur Sigurðsson KR 1967 Sigtryggur Sigurðsson KR 8. skjöldur til eignar 1968 Ómar Úlfarsson KR 1969 Sigtryggur Sigurðsson KR 1970 Sigtryggur Sigurðsson KR 1971 Sigtryggur Sigurðsson KR 9. skjöldur til eignar 1972 Sigtryggur Sigurðsson KR 1973 Sigurður Jónsson Umf.Víkverji 1974 Sigurður Jónsson Umf.Víkverji 1975 Sigurður Jónsson Umf.Víkverji 10. skjöldur til eignar 1976 Þorsteinn Sigurjónsson Umf.Víkverji 1977 Guðmundur F Halldórsson Ármann 1978 Hjálmur Sigurðsson Umf.Víkverji 1979 Hjálmur Sigurðsson Umf.Víkverji 1980 Hjálmur Sigurðsson Umf.Víkverji 11. skjöldur til eignar 1981 Ómar Úlfarsson KR 1982 Helgi Bjarnason KR 1983 Ólafur H Ólafsson KR 1984 Jón E Unndórsson Leikni 1985 Ólafur H Ólafsson KR 1986 Ólafur H Ólafsson KR 1987 Ólafur H Ólafsson KR 12. skjöldur til eignar 1988 Ólafur H Ólafsson KR 1989 Ólafur H Ólafsson KR 1990 Ólafur H Ólafsson KR 13. skjöldur til eignar 1991 Ólafur H Ólafsson KR 1992 Ólafur H Ólafsson KR 1993 Jón Birgir Valsson KR 1994 Ingibergur Sigurðsson Ármann 1995 Ingibergur Sigurðsson Ármann 1996 Orri Björnsson KR 1997 Ingibergur Sigurðsson Umf.Víkverji 1998 Ingibergur Sigurðsson Umf.Víkverji 1999 Pétur Eyþórsson Umf.Víkverji 2000 Ingibergur Sigurðsson Umf.Víkverji 14. skjöldur til eignar 2001 Pétur Eyþórsson Umf. Víkverji 2002 Ingibergur Sigurðsson Umf. Víkverja 2003 Pétur Eyþórsson Umf. Víkverja 2004 Pétur Eyþórsson Umf. Víkverja 2005 Pétur Eyþórsson KR 2006 Pétur Eyþórsson KR 2007 Pétur Eyþórsson KR TÖLFRÆÐI UM SKJALDARGLÍMU ÁRMANNS Skjaldarglíma Ármanns var oft fjölskipuð á árum áður. Alls hafa 788 keppendur tekið þátt í þeim 92 Skjaldarglímum sem háðar hafa verið. Fjöldi einstaklinga er að sjálfsögðu miklu færri en ekki hefur gefist tími til að grandskoða það. Nöfn allra nema eins eru þekkt. Þetta þýðir að í hverri Skjaldarglímu hafa verið tæplega 9 keppendur að meðaltali. Eftir því sem næst verður komist hafa keppendur 46 sinnum gengið úr keppni vegna meiðsla. Oftast eru þau meiðsli minni háttar en þó er vitað um 15 tilfelli þegar menn hafa orðið fyrir liðhlaupi eða beinbroti. Einu sinni hefur glímumanni verið vikið úr keppni. Fjölmennasta Skjaldarglíman var árið 1942 þegar 20 keppendur hófu og luku keppni. Þá áttu einnig flest félög keppendur eða 9. Sextán voru keppendur árið 1944 og 15 talsins 1920. Fæstir voru keppendur þrír talsins árin 1986 og 1999 og 2000. Oftast allra hefur Helgi Bjarnason kept í Skjaldarglímu eða 17 sinnum.Hannes Þorkelsson hefur keppt 16 sinnum. Helgi hefur alltaf keppt fyrir KR en Hannes hefur verið liðsmaður þriggja félaga; Umf. R, KR og Víkverja. Eftirtaldir hafa keppt 10 sinnum eða oftar í Skjaldarglímu Ármanns: 17 - Helgi Bjarnason KR 16 - Hannes Þorkelsson Umf. R, KR, UV 14 - Ólafur H Ólafsson KR 13 - Guðmundur F Halldórsson Ármanni 12 - Sigurður Hallbjörnsson Ármanni 11 - Ármann J Lárusson Umf. R 11 - Hjálmur Sigurðsson Umf. V 11 - Ingibergur Sigurðsson Umf. V, Ármanni, Umf. V. 10 - Hilmar Bjarnason Umf. R, KR Skjaldarglíma Ármanns hefur alltaf verið haldin innanhúss og alltaf í Reykjavík. Fyrsta glíman var haldin 1. apríl en síðan var hún lengst af haldin 1. febrúar ár hvert eða næsta dag á undan. Á áttunda áratugnum var farið að halda mótið um miðjan febrúar nokkrum sinnum. 1985 gerðist það fyrst að ekki tókst að halda keppnina á útmánuðum. Dróst fram til 14. desember að keppt væri. Var það og í sama sinn og fyrst var haldin Skjaldarglíma án þess að Ármenningar væru meðal keppenda. Síðan hefur það gerst þrisvar sinnum að Skjaldarglíma Ármanns hafi verið haldin í desember, árin 1992, 1998 og 1999. Lýkur hér að segja frá Skjaldarglímu Ármanns. Jón M. Ívarsson tók saman í apríl 2001 Uppfært af Helga Kjartanssyni og Lárus Kjartanssyni.